*

Matur og vín 30. desember 2012

Góðir vindlar fyrir gamlárskvöld

Það fylgir því mikil nautn og unaður að reykja vindil. Viðskiptablaðið mælir með nokkrum góðum vindlum fyrir gamlárskvöld.

Gísli Freyr Valdórsson

Það er hægt að fullkomna margar ljúfar stundir með úrvals vindli. Að finna lyktina, bragðið og það að handleika góðan vindil er munaður sem flestir ættu að leyfa sér af og til. Vindlar eru ekki til að fullnægja tóbaks- eða nikótínþörf eða fíkn. Þeir eru yndisauki, lúxus, hluti af hinu ljúfa lífi og á að njóta þeirra. 

Það eru margri sem vilja gera vel við sig á áramótunum og því rétt að benda á nokkrar vindlategundir sem óhætt er að mæla með vilji menn gera sér glaðan dag.

Fyrir óvanan reykingamann má mæla með afskornum premium vindlum frá Villiger eða Balmoral. Báðar tegundirnar eru með mildu bragði, þeir loga vel og það er hægt að kaupa þá í ýmsum stærðum og gerðum (m.a. sem smávindla). Þessir vindlar eru þó ekkert bara fyrir óvana menn, þeir eru satt best að segja mjög góðir fyrir alla. 

Romeo y Julieta Churchill vindlarnir eru líka sérstaklega góðir og ekki er verra að þeir eru kenndir við foringjann mikla. Bragðið einkennist af vanillu, kaffi, kakói og suðrænum ávöxtum. 

Cohiba Siglo VI er líka klassískur vindill en síðan er Cohiba Esplendido vindill sem rétt er að vekja sérstaka athygli á. Þessi dökki og bragðmikli vindill er uppáhaldsvindill Fidels Castro (sem þarf ekki að gera vindilinn sjálfan verri) og bragðið af honum einkennist af pipar, timbri og ristuðum möndlum. Hann verður enn betri með glasi af Glendronach viskíi. 

Hið virta vindlatímarit, Cigar Aficionado, valdi Alec Bradley Prensado Churchill frá Hondúras vindil ársins í fyrra. Hann er dökkur, bragðið einkennist af leðri, súkkulaði, sterku kryddi og eftirbragðið er með því betra sem gerist. 

Síðast en ekki síst má mæla með Don Tomas Corona og Don Tomas Presidente frá Hondúras. Báðar tegundirnar eru bragðsterkar, fullar af kaffi og kryddbragði, og ef til vill meira fullorðins, ef þannig má að orði komast. 

 

Nánar er fjallað um vindla og vindlategundir í áramótatímariti Viðskiptablaðsins sem kom út fyrir helgi. Þar eru einnig veitt góð ráð við geymslu og meðhöndlun vindla og eins við það hvernig best er að njóta þess að reykja góðan vindil. 

Mynd úr tóbaksbúðinni Björk. Þar fást margar af þeim tegundum sem mælt er með hér að neðan og fleiri til.

Stikkorð: Vindlar  • Vindlareykingar