*

Menning & listir 1. janúar 2019

Goðsögn með gulleyrun

Án þess að kunna á hljóðfæri eða hafa nokkra tónlistarmenntun að baki varð Clive J. Davis einn áhrifamesti maður bandarísks tónlistariðnaðar um áratuga skeið.

Sindri Freysson

„Ég er strákur frá Brooklyn.“ Þannig hefst ævisaga Clive J. Davis sem út kom fyrir fimm árum. David fæddist árið 1932 þegar þorri íbúa Brooklyn voru gyðingar eins og hann sjálfur og fjölskylda hans. Faðir hans var rafvirki sem sneri sér síðar meir að farandsölu hálsbinda og þó að fjölskyldan hafi alltaf átt til hnífs og skeiðar að sögn Davis, taldist hún þó aldrei efnuð. Hann var farsæll námsmaður, glöggur á tölur og fann fljótt að í honum bjó mikill keppnisandi, sem lýsti sér m.a. í að hann bauð sig fram og náði formennsku í nemendaráðum og skólafélögum flestöll sín námsár.

Munaðarlaus fyrir tvítugt
Hann missti móður sína átján ára gamall, áfall sem lék hann grátt og mótaði hann mjög alla tíð, og ekki bætti úr skák að faðir hans lést aðeins ellefu mánuðum síðar. Hann flutti inn til systur sinnar og einbeitti sér að náminu og eftir vist í New York háskóla bauðst honum fullur námsstyrkur til að læra lögfræði í Harvard lagaskólann. Honum sóttist námið vel en þótti það hvorki sérstaklega skemmtilegt né gefandi. Með heiðarlegri undantekningu; í námskeiði um höfundarétt var honum gert að gerast áskrifandi að tímaritinu Variety, sem oft er kallað biblía bandaríska skemmtanaiðnaðarins, og lestur þess kveikti áhuga hans á margvíslegum tölulegum staðreyndum um kvikmyndir og sjónvarp. Að lokinni útskrift 1956 fékk hann vinnu hjá lítilli lögmannstofu í New York, og gekk í hjónaband sama ár.

Hann vann hjá lögmannsstofunni næstu árin við almenn störf, gerði samninga og áætlanir sem tengdust skattamálum og fasteignum og átti ekki sérstaklega von á að fást við annað um ævina. En örlögin ætluðu honum annað hlutskipti.

Dag einn hafði fyrrverandi vinnufélagi hans, sem ráðið hafði sig til CBS-fjölmiðlasamsteypunnar, samband og bauð honum starf við samningagerð hjá samsteypunni. Davis þáði tilboðið með þökkum. Hann fékk stöðu ráðgjafa hjá dótturfyrirtæki CBS, plötuútgáfunni Columbia Records, og hjálpaði því að kveða niður mál sem laut að meintri einokunarstöðu útgáfunnar í þess hluta rekstursins sem laut að söfnun áskrifenda hljómplatna. Málaferlin veittu honum innsýn í hvern kopp og kima hljómplötuútgáfunnar og í kaupbæti komst hann í náðina hjá þáverandi æðsta yfirmanni Columbia, Goddard Lieberson. Þegar fyrirhugaður arftaki Liebersons hvarf til annarra starfa ákvað hann að Davis skyldi leiða fyrirtækið inn í nýja tíma.

Í miðri tónlistarlegri byltingu
Árið 1967 settist Davis í forstjórastólinn, á þeim tíma tónlistarsögunnar sem einkenndist af miklum hræringum og nýjabrumi. Ólgan birtist vel á popphátíðinni í Monterey í Kaliforníu í júní sama ár; þar skaut Davis upp kollinum og stakk rækilega í stúf við aðra áhorfendur, mestmegnis hippa og blómabörn sem liðu alsæl um hátíðarsvæðið vel sýrð og reykt. Á meðal tónlistarmanna sem tróðu upp var kröftugur söngfugl frá Texas að nafni Janis Joplin, gítarsnillingur að nafni Jim Hendrix og breska rokksveitin The Who. Davis fylgdist grannt með því sem fram fór og varð uppnuminn. „Beint fyrir framan okkur var verið að gera tónlistarlega byltingu. Það lék allt á reiðiskjálfi. Það varð þyngra og harðara. Það var rafmagnað,“ lýsti Davis þessari upplifun í viðtali fyrir nokkrum árum.

Hann gerði án tafar útgáfusamning við Joplin og hljómsveit hennar, Big Brother & the Holding Company, og segir langlíf saga að hún hafi af örlæti hjartans boðist til að innsigla samninginn í rekkju, en Davis afþakkað kurteislega í mestri vinsemd. Fleiri útgáfusamningar fylgdu í kjölfarið og á örskömmum tíma varð Columbia leiðandi útgefandi poppog rokktónlistar. Á aðeins þremur árum eftir að hann tók við stjórnartaumunum tvöfaldaði Columbia markaðshlutdeild sína í tónlist í Bandaríkjunum. Davis reyndist hafa einstakt lag á að þefa uppi unga og efnilega listamenn og sannfæra þá um að ferli þeirra og málum væri best borgið undir hans handleiðslu. „Ég villtist inn í þennan iðnað af hreinni hendingu. Ég hafði engin áform um slíkt. Og þegar ég byrjaði uppgötvaði ég að ég hafði náðargáfu sem mig hafði aldrei órað fyrir,“ sagði Davis í viðtali við BBC í fyrra.

Árið 1972 fékk Davis síðan hljómsveitina Earth, Wind & Fire til liðs við fyrirtækið og skömmu siðar bættist rokkhljómsveitin Aerosmith í hópinn, sveit sem átti eftir að eiga ótal smelli á vinsældalistum og selja plötur í bílförmum.

Árið 1972 var leiddur inn á skrifstofu hans ungur og óþekktur rokkari sem hóf að plokka gítarinn og syngja af öllum lífs og sálar kröftum. Hann hét Bruce Springsteen og Davis gerði við hann samning á staðnum. Davis afþakkaði þó fyrstu plötuna sem Springsteen hljóðritaði á þeim forsendum að hana vantaði sárlega vænlega smelli til að setja á smáskífur. Springsteen brást ekki ókvæða við öfugt við það sem margir listamenn myndu gera, heldur lagðist undir feld og hljóðritaði síðan tvö lög til viðbótar, lög sem áttu eftir að slá í gegn, þar á meðal Blinded By the Light. Davis var hæstánægður og ferill Springsteens fór á feiknarlegt flug.

Leiddi Whitney Houston til frægðar
CBS rak hann hins vegar úr starfi árið 1973 á þeim forsendum að hann hefði notað fjármuni fyrirtækisins of frjálslega í eigin þágu, ásakanir sem hann hefur alltaf sagt vera hreinan þvætting. Columbia Pictures, sem tengdist ekkert CBS á þeim tíma, réð hann fljótlega til að vera ráðgjafi í tónlistardeild fyrirtækisins. Hann stofnaði síðan fyrirtækið Arista Records á grunni deildarinnar og hóf að gefa út listamenn á borð vð Barry Manilow, Arethu Franklin, Dionne Warwick, Patti Smith, Grateful Dead, The Kinks og Lou Reed, og síðar meir Westlife, Aliciu Keys og ótal fleiri. Davis stofnaði einnig fyrirtækið LaFace Records sem gaf m.a. út TLC, Usher, Outkast, Pink og Toni Braxton. Þá stofnaði hann fyrirtækið Bad Boy Records með tónlistarmógúlnum P. Diddy og gaf út margar söluháar rappplötur undir hatti þess næstu árin, þar á meðal með Notorious B.I.G. og P. Diddy.

En stærsta stjarnan á himni Davis var þó líklega Whitney Houston, ekki síst vegna þess að hann uppgötvaði hana þegar hún var aðeins 19 ára gömul og stýrði ferli hennar uns hún varð einn söluhæsti tónlistarmaður allra tíma. Hann gerði heiðarlega tilraun til að bjarga henni frá eiturlyfjum en mistókst og horfði sorgmæddur á eftir henni í gröfina.

Hann hefur hlotið fern Grammy-verðlaun fyrir að framleiða hljómplötur, tvenn þeirra fyrir plötur hljómsveitarinnar Santana með gítarleikarann Carlos Santana í broddi fylkingar. Aldamótaárið 2000 varð Davis fyrsti yfirmaður í tónlistariðnaði til að vera tekinn inn í svokallaða Frægðarhöll rokksins, Rock and Roll Hall of Fame, en til þess tíma voru það aðeins listamenn sem nutu þess heiðurs. Sama ár yfirgaf hann Arista og stofnaði J Records, sem Bertelsmann Music Group (BMG) keypti meirihluta í nokkru síðar. Hann varð síðan forstjóri og stjórnarformaður RCA Music Group, dótturfyrirtækis BMG. Þegar BMG sameinaðist Sony Music Entertainment gegndi hann áfram æðstu stöðum og fékk titilinn yfirmaður sköpunardeildar Sony BMG árið 2008, þá kominn á áttræðisaldur.

Að láta listamenn í friði
Spurður í NYU Alumni Magazine árið 2011 hver galdurinn væri á bak við að hlúa að svo mörgum ólíkum listamönnum með hámarksárangri, svaraði Davis: „Grundvallaratriðið er að vera við stjórnvölinn og gera hvaðeina sem þarf að gera. Þegar Patti Smith var uppgötvuð þurfti ekki að gera annað en að láta hana í friði. Maður lætur listamenn á borð við Patti Smith, Aliciu Keys eða Bruce Springsteen í friði, því að það er verið að semja við þá vegna sköpunargáfu þeirra og þess að þeir eru einstakir. Maður býr bara til mjög vinsamlegt umhverfi til að þeir geti skapað.“

Davis er kominn hátt á níræðisaldur en starfar ennþá í tónlistariðnaðinum og leggur sitt af mörkum til fagsins, m.a. með háum fjárframlögum til stofnunar sem við hann er kennd hjá New York University og býður nemum upp á að sérhæfa sig í framleiðslu tónlistar. Hann er löngu orðin goðsögn í þeim iðnaði og virðist ekkert ætla að láta deigan síga þrátt fyrir háan aldur.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.