*

Bílar 2. febrúar 2019

Goðsögnin Geländewagen

Geländewagen er einn merkilegasti bíll sem Mercedes-Benz hefur framleitt. Orðið er þýskt og merkir einfaldlega jeppi.

Róbert Róbertsson

Geländewagen er einn merkilegasti bíll sem Mercedes-Benz hefur framleitt. Orðið er þýskt og merkir einfaldlega jeppi. Í seinni tíð hefur bíllinn fengið nafnbótina G-Class í takt við aðrar bílalínur þýska lúxusbílaframleiðandans. Það var var sérlega skemmtilegt verkefni að aka þessum magnaða jeppa í snjónum á höfuðborgarsvæðinu á dögunum.

Þessi stóri og stæðilegi jeppi hefur lítið breyst að utan síðan hann kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1972. Hönnunin er tímalaus og klassísk. Ný kynslóð jeppans er stærri og innanrýmið hefur verið endurhannað fyrir enn meiri þægindi í akstri og nýjustu tækni. Jeppinn er nú 5,3 sentimetrum lengri og 12,1 sentimetrum breiðari en forverinn. Olnbogarými er því enn meira en áður og fótarými sömuleiðis og var nú ekki þröngt um ökumann og farþega fyrir í þessum stóra og stæðilega jeppa.

Nýja gerðin er 170 kg léttari, heldur driflæsingum og er með sjálfstæða fjöðrun að framan. Hann er með nýjan gírkassa og nýja grind sem er 55% stífari en áður og hefur 70 cm í vaðdýpt sem er aukning um 10 cm. Þá er hann kominn með rafmagnsstýri í stað vökvastýris sem tryggir betri aksturseiginleika.

Meiri bíll en kostar 33 milljónir

Ný kynslóð G-línu hefur stækkað talsvert og er enn plássmeiri en áður og maður finnur það sérstaklega þegar setið er í aftursætunum. Veghæð er nú 6 mm meiri. Þetta er enn meiri bíll en áður og má líka alveg vera það enda kostar reynsluakstursbíllinn 33 milljónir króna. Hægt er að fá G-Class frá 24 milljónum.

Nýja kynslóð G-línu er líka 170 kílóum léttari þrátt fyrir meiri staðalbúnað. Þetta er samt sem áður engin smásmíði en eigin þyngd jeppans er 2.560 kg.

Mesta breytingin í innanrýminu er á mælaborði, en bílinn sem var prófaður er með nýja Panorama mælaborðinu eins og kynnt var í A-Class nýverið. Díóðuljósin spila einnig stórt hlutverk í stemmningunni inn í bílnum en þau breyta um lit eftir geðþótta ökumanns og farþega. Sætin eru stærri og þægilegri, úr nappa leðri og fáanleg með nuddi. Hann líka virkar allur þéttari og frágangur enn betri en áður enda var markið sett að ná svipuðum staðli og í S-línunni.

V8 vélin urrar eins og villidýr

Handfögnin á hurðunum eru gamaldags sem er skemmtilegt og passar vel við þessa goðsögn. Það þarf líka að skella hurðum nokkuð hressilega til að loka þeim. Útsýnið að aftan er ekkert sérstakt þar sem stórt varahjólið hangir aftur á bílnum sem er flott útlitslega en ekki kannski nógu praktískt þegar kemur að útsýnishlutanum. Bakkmyndavélin reddar samt málunum að miklu leyti þegar þessu stóra jeppa er bakkað en það væri vissulega ekki verra að sjá meira út að aftan.

Aksturinn er mjúkur og góður og raunar mýkri en maður býst við í þessum stóra jeppa. V8 bensínvélin urrar eins og villidýr þegar jeppanum er gefið inn. Það er nóg afl undir vélarhúddinu hér en 4 lítra vélin skilar alls 420 hestöflum. Togið er 610 Nm og þessi stóri bíll hefur nóg afl. Það kemur berlega í ljós þegar gefið er inn því hann er aðeins 5,5 sekúndur úr kyrrstöðu í hundrað. Hámarkshraðinn er 250 km/klst. Hins vegar er þetta jeppi sem eyðir mjög miklu eldsneyti og það liggur vi ðað maður sjái bensínmælinn hreyfast þegar ekið er. Skráð eyðsla er frá 21,4 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri. Hann fær engine verðlaun fyrir sparakstur eða að umhverfisvænn. CO" losuin er 299 g/km.

Þrjár driflæsingar

Það er skemmtilegt að aka jeppanum í torfærum og snjónum sem kom loksins eftir fádæma veðurblíðu fram undir miðjan janúar. G-Class leikur sér að því að aka í gegnum skafla og snjóþyngsli. Það er hans ær og kýr. Hann étur líka stórar hraðahindranir eins og ekkert sé. Fjöðrunin að framan er nú sjálfstæð í stað heilsöxuls. Það eru þrjár driflæsingar, að framan, aftan og í millikassa og fullt af öðrum búnaði til að vaða í alls kyns torfærur. Líklega eru fáir jeppar jafn góðir í torfærur og þessi gæðingur.

G-línan kostar frá 22.360.000 kr en bíllinn sem reynsluekið var kostar eins og áður segir um 33 milljónir með nánast öllum aukabúnaðinum sem hægt er að fá í þessa bíla.

 

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér