*

Veiði 2. júní 2012

Góður félagsskapur í byssunum

Það er lítið veitt á byssur yfir sumarið en þá er tilvalið að nýta tímann og æfa skotfimina og hittnina, m.a. með því að skjóta leirdúfur.

Gísli Freyr Valdórsson

Það er mikilvægt fyrir skotveiðimenn að nýta sumarið vel til að æfa sig ætli þeir sér að ná árangri á veiðum næsta haust. 

Þetta segir Gunnar Sigurðsson, leiðbeinandi hjá Skotfélagi Reykjavíkur (SR), en hann hefur um árabil kennt og leiðbeint byrjendum í skotveiði. 

Aðsókn í byssu- og veiðileyfi hefur verið nokkur á síðustu árum og sífellt fleiri sækja sér réttindi til að stunda þetta vinsæla sport. Það er þó hægara sagt en gert að hitta fugl á flugi, sérstaklega fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í veiðimennsku.

„Það er mjög algengt að fólk byrji á því að fara í skotveiði, verði fyrir vonbrigðum af því að það hittir illa og fer þá á námskeið,“ segir Gunnar í samtali við Viðskiptablaðið, en hann hefur um árabil leiðbeint framtíðarskotveiðimönnum. Hann segir það þó færast í aukana að fólk komi á námskeið áður en það fer að veiða. 

„Það er líka mikilvægt að menn noti sumarið vel til að æfa sig, t.d. með því að skjóta leirdúfur,“ segir Gunnar. 

„Það þarf ekki stífar æfingar til, nema menn ætli sér að keppa í skotfimi. En þetta er tilvalin leið til að halda sér í góðu formi í þessu auk þess sem þetta er skemmtilegt sport. Það er mjög algengt að hingað komi vinahópar eða veiðifélagar, fái sér kaffi, taki gott spjall og skjóti nokkra hringi.“  

 

Nánar er fjallað um málið í umfjöllun um veiði í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.