
Volkswagen Golf var valinn bíll ársins í Norður-Ameríku á bílasýningunni í Detroit sem nú er nýlokið. Sýningin í Detroit er fyrsta stóra bílasýning ársins og sú stærsta í Bandaríkjunum.
Sérstök dómnefnd sem skipuð var 57 blaðamönnum valdi bíl ársins, meðal annars á grundvelli hönnunar, öryggis og afkastagetu. Golf átti í harðri baráttu við bíla eins og Ford Mustang og Hyundai Genesis en hafði betur að lokum. Þetta er rós í hnappagat hins vinsæla þýska bíls að vera valinn enda þykir það mikill heiður.
Sýningin nú var raunar sú stærsta sem haldin hefur verið vestanhafs í mörg ár og þótti sérlega vel heppnuð. Sýningin í Detroit er fornfræg en hún hefur verið haldin óslitið síðan 1907. Árið 1987 var sú ákvörðun tekin að gera hana alþjóðlega og er hún nú talin vera fjórða stærsta sýningin í heiminum á eftir Evrópusýningunum í Frankfurt, París og Genf.