*

Bílar 17. nóvember 2014

Golf valinn bíll ársins hjá Motor Trend

Sjöunda kynslóða Golfsins virðist vera vel heppnuð að mati bílablaðamanna víða um heim.

Volkswagen Golf var á dögunum valinn bíll ársins hjá bandaríska bílatímaritinu Motor Trend. Útfærslurnar af Golfinum sem Motor Trend prófaði voru Golf 1,8T, Golf TDI Clean Diesel, Golf EV og Golf GTI og eru þeir þessa heiðurs aðnjótandi.

Golfinn hefur oft unnið til alþjóðlega verðlauna en þessi sjöunda kynslóð bílsins virðist vera mjög vel heppnuð að mati bílablaðamanna víða um heim.

Tíu bílar komust í úrslit hjá Motor Trend af 23 alls sem voru í forvalinu. Þeir sem komust í úrslit auk Golfsins voru Audi A3, BMW 2-línan, Ford Mustang, Honda Jazz, Hyundai Genesis, Kia Sedona, Lexus RC, Maserati Ghibli og Mercedes Benz C-Class.

Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að Golfinn uppfylli vel þarfir bíleigenda, og bíllinn sé vel búinn nýjustu tækni, eyði mjög litlu eða engu í rafmagnsútgáfunni og boðið sé upp á öfluga en sparneytna sportútgáfu.