*

Bílar 1. apríl 2013

Golf valinn Bíll heimsins 2013

Nokkrum vikum eftir að bíllinn var kjörinn Bíll ársins í Evrópu var Volkswagen Golf útefndur Bíll heimsins á sýningunni í New York.

Róbert Róbertsson

Nýr Volkswagen Golf er heldur betur að slá í gegn um þessar mundir en bíllinn var útnefndur Bíll heimsins 2013 bílasýningunni í New York, sem hófst sl. föstudag. Fyrir aðeins fáeinum vikum var Golf kjörinn Bíll ársins í Evrópu.

Nýr Golf var kynnt hér á landi í byrjun ársins og má segja að þessum tveimur virtu verðlaunum fái bíllinn fljúgandi start á markaði. Þetta er sjöunda kynslóð þessa vinsæla bíls en tæplega 30 milljón eintök hafa selst síðan hann kom fyrst á markað árið 1974. Þessi nýi Golf er 100 kílóum léttari en fyrirrennarinn en á sama tíma lengri og breiðari. Bíllinn er líka talsvert sparneytnari, því hann eyðir allt að 23% minna eldsneyti, sem auðvitað fer eftir vélargerð. Dómnefnd skipuð 66 blaðamönnum frá öllum heimshornum valdi Bíl heimsins á New York sýningunni.Golf hafði betur í harðri baráttu við Mercedes-Benz A-Class, Porsche Boxter/Cayman og Toyota GT 86 / Subaru BRZ.

Sportbíll heimsins var valinn Porsche Cayman/Boxster eftir harðan slag við aðra magnaða bíla eins og BMW M6, BMW M135i, Audi RS5, Aston Martin Vanquish, SLS63 AMG, SLS AMG Roadster, Ferrari F12 Berlinetta og Toyota GT 86 / Subaru BRZ. Tesla Model S var kjörinn Umhverfisbíll heims 2013 og Jaguar F-Type fékk verðlaun fyrir bestu hönnunina.

 

Hér má sjá myndband af því þegar Autocar tók Golfinn í reynsluakstur.

Stikkorð: Volkswagen Golf