*

Híbýli 8. febrúar 2021

Golfvilla fyrir hálfan milljarð

570 fermetra spænsk lúxusvilla, sem er með golfvöll í bakgarðinum, er auglýst til sölu á íslenskum fasteignavef.

Jóhann Óli Eiðsson

Hefur þig dreymt um að eignast 570 fermetra villu, með 400 fermetra verönd og útsýni yfir golfvöll? Eigir þú rúmlega hálfan milljarð króna gæti sá draumur ræst en Spánareignir hafa eina slíka á sölu um þessar mundir. 

Húsið, sem er staðsett í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Alicante, inniheldur fjögur svefnherbergi, fjögur baðherbergi, tvö salerni, borðstofu, eldhús, einkasundlaug og einkaspa. Út um stóra glugga er útsýni yfir Las Colinas golfvöllinn og um tíu mínútna gangur er niður á strönd. Aðrir golfvellir í nágrenninu eru til að mynda La Finca, Las Ramblas, Campoamor og Villamartin.

Húsið er á þremur hæðum og er í því innbyggð lyfta. Spa-ið inniheldur innisundlaug, gufubað og nuddpott. Þá fylgir með í kaupum rúmgott afþreyingaherbergi sem samkvæmt auglýsingunni býður upp á möguleika á bíósal. Rúmgóð geymsla gæti síðan mögulega rúmað sæmilegan vínkjallara. 

Samkvæmt auglýsingu hússins er kaupverð 3,3 milljónir evra, rúmlega 511 milljónir íslenskar miðað við gengið 155 á evruna, en viðbúið er að 13% kostnaður geti bæst við kaupverðið. Innifalið í kaupum er ótakmarkað golf á Las Colinas í tvö ár og afnot af bílaleigubíl í eitt ár. Þá er tekið fram að fasteignasalan taki þátt í kostnaði af ferðalögum og skoðun á eigninni ef af kaupum verður.