*

Veiði 25. ágúst 2012

Gömlu hundarnir kenni þeim ungu að sitja

Reyndir veiðimenn eiga að aðstoða þá ungu frekar en að skamma þá, segir formaður Skotvís. Gæsaveiðitímabilið hófst á mánudag.

Nú gætir víða fiðrings hjá skotveiðimönnum enda hófst gæsaveiðitímabiliðsíðastliðinn mánudag, 20. ágúst. Elvar Árni Lund er formaður Skotvís, Skotveiðifélags Íslands. Hann segir útlitið gott fyrir vertíðina.

Aðspurður um það helsta sem hafa þarf í huga áður en haldið er til veiða segir Elvar útbúnaðinn mikilvægan, sérstaklega þegar haldið sé til fjalla. Að auki hafa samtökin Skotvís hvatt veiðimenn til að æfa sig vel. „Það er náttúrlega bara liður í því að gera góða veiðimenn enn betri að æfa sig mjög vel.“

Samskipti við aðra veiðimenn eru annað mikilvægt atriði að sögn Elvars. „Við höfum verið að hvetja eldri og reyndari veiðimenn til að taka ungum og óreyndum veiðimönnum vel og aðstoða þá frekar en að skamma þá. Reyna þá að kenna þeim fyrstu sporin. Það hafa allir þurft að byrja einhverntíma. Við leggjum líka áherslu á að veiðimenn gæti sín í samskiptum við þá sem ekki eru á veiðum. Sumir eru á móti þessu, eða skilja þetta ekki, og þá eigum við að sýna því fólki tillitssemi.“

Stikkorð: Skotvís  • Elvar Árni Lund  • Gæsaveiði