*

Matur og vín 3. nóvember 2019

Gömul McDonald's máltíð lifir góðu lífi

Íslendingur ákvað fyrir 10 árum að geyma sína síðustu McDonald's máltíð til að kanna hvort satt sé að máltíðin rotni aldrei.

Nú á dögunum voru liðin tíu ár frá því að McDonald's lokaði öllum veitingastöðum hér á landi. Á sínum tíma þegar styttist í lokun staðanna ákvað Íslendingurinn Hjörtur Smárason að kaupa sér McDonald's hamborgara og franskar í síðasta sinn á Íslandi, a.m.k. í bili. Ólíkt flestum öðrum í sömu stöðu lagði hann kræsingarnar ekki sér til munns, heldur ákvað hann að geyma herlegheitin, til að komast að því hvort lífsseigur orðrómur um að McDonald's hamborgarar og franskar rotni aldrei, sé sannur.

„Ég hafði heyrt að McDonald's hamborgari og franskar rotnaði aldrei og vildi komast að því hvort það sé satt eða ekki," er haft eftir Hirti í frétt BBC um málið.

Skemmst er frá því að segja að á þeim áratug sem er liðinn frá því að Hjörtur keypti ofangreinda máltíð, lítur hún nánast alveg eins út og daginn sem hún var keypt.

Áhugasamir geta meira að segja nálgast beina útsendingu af hamborgaranum og frönskunum, en í dag er máltíðin staðsett í glerkassa á hostelinu Snotra House á Suðurlandi.

Stikkorð: McDonald's  • franskar  • hamborgari