*

Bílar 13. júlí 2013

Gömul silfurör slær heimsmetið - 3,9 milljarðar

Enginn bíll hefur selst á hærra verði en kappakstursbíll Juan Manuel Fangio sem seldist á uppboði í gær.

Kappakstursbíll af gerðinni Mercedes Benz W196 seldist í gær á uppboði hjá Bonhams uppboðshúsinu á Goodwood Festival of Speed. Bílarnir er gjarnan kallaðir silfurörvarnar (e. Silver Arrows, þ. Silberpfeil) vegna mikils hraða þeirra og útlits.

Billinn seldist fyrir 19.601.500 sterlingspund, rúma 3,9 milljarða króna. Ekki hefur verið upplýst um kaupandann sem keypti bíllinn í gegnum síma.

Verðið telst vera heimsmet á uppboði en fyrri methafi var 1957 Ferrari 250 Testa Rossa Prototype sem seldist á 10,8 milljónir punda árið 2011.

Einnig verður að telja að bíllinn sé dýrasti bíll sem seldur hefur verið um yfirhöfuð, en VB bílar fjölluðu um dýrasta bíl í heimi í vor.

Einn besti ökumaður allra tíma, Argentínumaðurinn Juan Manuel Fangio, sigraði F1 mótaröðina á bílnum 1954 en hann varð fimm sinnum heimsmeistari.

Almennt er viðurkennt í bílaheiminum að W196 sé meistaraverk. Bíllinn er með 2,5 lítra vél sem skilaði 250-300 hestöflum. Við smíði vélarinnar var byggt á þekkingu sem skapaðist við smíði Messerschmitt Bf 109 orrustuflugvélarinnar.