*

Tölvur & tækni 29. júní 2012

Google færir jólin fram í júní

Allskonar góðgæti leyndist í gjafapoka á tækniráðstefnu Google. Þar á meðal var nýja spjaldtölvan, Nexus 7 og snjallsími.

Gestir á I/O tækniráðstefnu Google fóru klyfjaðir heim þegar ráðstefnunni lauk í dag. Á meðal þess sem finna mátti í gjafapakka fyrirtækisins voru nýja spjaldtölvan Nexus 7, afþreyingagræjan Nexus Q, Galaxy Nexus-snjallsími og borðtölvan Chromebox. 

Fulltrúi netmiðilsins CNet á svæðinu áætlar að heildarverðmæti hvers pakka hafa numið 1.176 dala, jafnvirði tæpra 150 þúsund íslenskra króna. Hann hafði eftir einum ráðstefnugesta sem beið eftir því í röð í Moscone Center-ráðstefnuhöllinni í gær að nú væru jólin gengin í garð.  

Reyndar má segja að gestir Google hafi greitt fyrir herlegheitin því aðgöngumiðinn á ráðstefnuna kostar almennt litla 900 dali, jafnvirði rúmra 110 þúsund króna. Fræðimenn komst inn fyrir 300 dali en blaðamönnum er alla jafna boðið. Fælingarmáttur miðaverðsins er hins vegar enginn því allir miðar á I/O-ráðstefnuna seldust upp á 20 mínútum.

Fulltrúa CNet á svæðinu taldist til að 5.500 manns hafi sótt ráðstefnu Google í vikunni og hafi verðmæti gjafapakkans því numið 5,5 milljónum dala, jafnvirði tæpra 700 milljóna íslenskra króna. 

Hér má sjá myndband frá kynningu á Nexus 7 á I/O ráðstefnunni.

Stikkorð: Google  • I/O