*

Hitt og þetta 6. febrúar 2006

Google og Skype fjárfesta saman

Í Vegvísi Landsbankans í dag er vakin athygli á því að leitarrisinn Google og vefsímaþjónustan Skype hafa sameinast um fjárfestingu í spænsku veffyrirtæki. Fyrirtækið heitir FON Technology og stefnir á að byggja upp alþjóðlegt net þráðlausra netsvæða (e. hot spots).

Í Vegvísinum er bent á að fyrirtækið, sem rekur höfuðstöðvar sínar í Madrid, var stofnað fyrir aðeins fjórum mánuðum síðan og hefur enn sem komið er engar tekjur. Engu að síður hefur fyrirtækinu tekist að afla sér 1,4 ma.kr. frá Google og Skype, auk tveggja áhættufjárfesta. Kerfið sem fyrirtækið býður uppá gerir viðskiptavinum þess kleift að deila með sér nettengingum sínum. Þannig er notendum skylt að hafa eigin nettengingu en gefa öðrum færi á að nýta hana og fá í staðinn aðgang að tengingum þeirra. Kjósi þeir að deila ekki sinni nettengingu ber þeim að greiða FON fyrir þjónustu þeirra. Með þessari tækni ætlar fyrirtækið að útvíkka svæðið sem viðskiptavinir þess hafa aðgang að þráðlausri nettenginu, án mikils tilkostnaðar. Er markmið fyrirtækisins að setja upp yfir milljón tengipunkta um allan heim, fyrir árið 2010.

Hagsmunir Google og Skype í þessari fjárfestingu eru tvíþættir. Auk þess að sjá fram á hagnað af fjárfestingunni til langs tíma telja þeir ekki síður mikilvægt að stuðla að auknu aðgengi og notkun á vefmiðlum. Þjónusta FON verður frí til að byrja með og hægt er hlaða niður hugbúnaðinum af vefsíðu fyrirtækisins segir í Vegvísi Landsbankans.