*

Tölvur & tækni 31. ágúst 2015

Google styrkir stöðu sína í keppninni við Apple Watch

Hægt verður að tengja snjallúr sem keyra á Android stýrikerfinu frá Google við iPhone síma.

Google hefur greint frá því að snjallúr sem munu keyra á „Android Wear“ hugbúnaði fyrirtækisins muni einnig virka með iPhone. Fram að þessu var einungis hægt að tengja slík úr við Android snjallsíma.

Nú getur manneskja með iPhone síma sótt Android Wear forritið í App Store og tengt símann við eitt af snjallúrunum sem keyra á stýrikerfi Google.

Android Wear snjallúrin munu virka með iPhone símum sem nota iOS 8.2 eða nýrri uppfærslur, en þessar fréttir koma ekki á óvart. Kínverska fyrirtækið Huawei tilkynnti óvart á dögunum að nýjustu snjallúr þess verði einnig með tengingu við iPhone.

Talið er að þessi möguleiki muni gefa Google betri möguleika á snjallúramarkaðnum, í ljósi þess að fyrirtækið getur nú einnig náð til notenda sem nota iPhone síma. Hins vegar munu iPhone eigendur ekki hafa jafn marga möguleika á úrum sem keyra á Android og þeir sem eiga t.d. síma frá Samsung eða LG, sem keyra á Android stýrikerfinu.

Stikkorð: Google  • Android  • tækni  • Apple Watch