*

Menning & listir 27. nóvember 2013

„Götulúkkið“ sett á ís

Vilhjálmur í Herragarðinum segir karlmenn vera óhrædda við að ganga í litum.

Edda Hermannsdóttir

Herralegir karlmenn í flottum blazer og skyrtu við gallabuxurnar eða kakíbuxurnar er það sem einkennir herratískuna um þessar mundir að sögn Vilhjálms S. Vilhjálmssonar, verslunarstjóra Herragarðsins.

„Götulúkkið hefur aðeins fengið að hvíla sig í bili. Menn eru óhræddari við að ganga í litum. Nýlega opnuðum við litríka Polo Ralph Lauren deild sem hefur vakið mikla lukku. Merki eins og Sand, Armani og Stenströms hafa gengið mjög vel hjá okkur en einnig hefur aukist að menn fái sérsaumaðan fatnað frá okkur. Íslenskir karlmenn og sérstaklega þeir yngri hafa miklar skoðanir á því hvernig þeir vilja hafa hlutina og við reynum að sýna þeim það nýjasta. Það hefur orðið mikil breyting á þessu að mínu mati síðustu ár og segja má að karlmenn séu duglegri að búa sér til sinn eigin stíl.“

Jólaverslunin er mikilvægur tími hjá Herragarðinum en þangað koma bæði karlmenn sem vilja ný föt fyrir jólin og aðrir sem eru að leita að gjöfum. Þá er hægt að kaupa bindi, peysur, skó, skyrtur og stærri gjafir eins og yfirhafnir. Núna eru þegar einhverjir byrjaðir að kaupa jólagjafirnar en í byrjun desember fer allt á fullt og fjörið heldur áfram alveg fram á aðfangadag að sögn Vilhjálms.

Enginn vill lenda í jólakettinum og því er desembermánuður ansi líflegur í fataverslunum. Nánar er fjallað um fatavalið um jólin í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.