*

Tölvur & tækni 4. janúar 2013

Græjur ársins: iPad Mini trónir á toppnum

Í tímariti Viðskiptablaðsins, Áramót, var farið yfir tíu helstu græjur ársins 2013.

Í tímariti Viðskiptablaðsins, Áramót, var farið yfir tíu helstu græjur ársins 2013. Hér verður farið yfir fjórar þeirra, þ.e. þær græjur sem lentu í fjórum efstu sætunum í uppröðuninni.

 

Hi-Fun Bluetooth hanskar

Takið eftir hvernig konan heldur fingrum að vanganum, líkt og hún sé að tala í síma. Nema hún er einmitt að tala í síma. Þessir prjónahanskar eru nefnilega gæddir Blátannar-tækni, en á endanum á þumlinum er hátalari og á enda litla fingurs er hljóðnemi. Hanskarnir eru svo paraðir við símann, sem þá má hafa í vasanum. Einmitt það sem hinn íslenski nörður verður að eiga.

 

Samsung ES9000

Þetta er enn eitt heimilisaltarið frá Samsung, með undursamlegum myndgæðum og stútfullt af nýjustu tækni frá Kóreu. Þetta er snjallsjónvarp með nettengingu, ótrúlegri skerpu og öllu bullinu, eins og þar stendur. Allt er það þó aukaatriði hjá hinu: Þetta er 75 tommu skrímsli. Þarf að ræða það eitthvað?

 

Philips Hue

Fyrst heldur maður að það sé síðbúin tilraun til aprílgabbs hjá Philips, þegar raftækjarisinn vill selja okkur þráðlausar, nettengdar ljósaperur. Það er nú eitthvað annað. Þetta eru nefnilega LED-ljósaperur, en í hverri þeirra eru þrír ljósgjafar frumlitanna. Þegar þeir lýsa allir jafnskært er birtan frá perunni hvít, en síðan má draga niður í ljósgjöfunum eftir þörfum og framkalla þannig hvaða lit sem er. Dýrðinni er svo stýrt með snjallsíma, iPad eða öðrum netgræjum. Þannig er auðvelt að kalla fram stillingar eftir tilefni; vinnuljós, róandi ljós, kalda birtu o.s.frv. En svo má halda áfram, láta litina kallast á eða nota myndavélina í snjallsímanum til að samræma birtuna litnum á sófanum eða málverki uppi á vegg. Eins má nota Hue til þess að vakna hægt og rólega við morgunroða eða hafa partíljós í takt við tónlistina. Perurnar eru dýrar, en algerlega þess virði.

 

iPad Mini

Það var Apple sem hratt nýrri tölvubyltingu af stað með iPhone og iPad, en þó Apple sé ekki lengur eitt um hituna á snjallsímamarkaði eru aðrar spjaldtölvur en iPad varla með. iPad Mini er minni um sig en upphaflegi iPadinn, en skjárinn er samt með sömu pixelafjöld. Hann er mun handhægari - í raun eins og lesvél að handfjatla - en er að öðru leyti flestum sömu kostum búinn. Ekki sístum þeim að öll öpp fyrir iOS virka á honum. iPad Mini sló í gegn um þessi jól, en síðar á nýja árinu má búast við uppfærðri útgáfu með Retina-skjá, skjá með svo hárri upplausn að augað greinir ekki stök korn á honum. Byltingin er hafin, ekki missa af henni.

Stikkorð: Græjur ársins