*

Tölvur & tækni 1. maí 2016

Grafín gæti valdið tæknibyltingu

Grafín er sterkasta efni sem vitað er um og hefur marga athyglisverða eiginleika.

Ólafur Heiðar Helgason

Allir kannast við ónotatilfinninguna sem fylgir því að vera með batteríslausan síma. Og það gerist sífellt oftar eftir því sem síminn eldist. Eftir tveggja til þriggja ára notkun á tækjum á borð við farsíma er endingartími rafhlaðna oft aðeins brot af því sem hann var þegar rafhlaðan var ný.

Grafín gæti breytt þessu og mörgu öðru. Þetta töfraefni er afsprengi þeirrar byltingar í nanótækni sem orðið hefur á undanförnum árum og flestir hafa heyrt af. Nanótækni hefur nú þegar þróast úr því að vera viðfangsefni háfleygra greina í vísindatímaritum og í að bjarga mannslífum. Ekki er langt síðan ný tæki komu á markaðinn sem nota nanótækni til að greina krabbameinsfrumur með mun skilvirkari og fljótlegri hætti en áður var mögulegt.

Sterkasta efni sem vitað er um

Rannsóknir á grafíni eru ekki komnar jafn langt, en það lítur út fyrir að þetta undarlega efni verði notað í ýmissi framtíðartækni. Vonir standa til þess að hægt verði að nota grafín í langlífari og hagkvæmari rafhlöður, en rannsóknir standa yfir á notkun efnisins á mörgum öðrum sviðum. Þar má nefna sveigjanlega skjái, ígræðslur í taugafrumur og nýja kynslóð ljósleiðara og snertiskjáa, svo aðeins örfá dæmi séu tekin. Hráefnið í grafíni er ekkert sérstaklega merkilegt. Grafín er hreint kolefni, rétt eins og grafít sem notað er í blýanta. Það er samsetning efnisins sem gerir það einstakt. Grafín er eins atóms þykk breiða kolefniskristalla. Atóm eru byggingareiningar alls efnis og því verða efni vart þynnri heldur en grafín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Grafín