*

Menning & listir 2. nóvember 2013

Grant í góðum gír - en Svíarnir komu á óvart

Þeyst var á milli tónleika á þriðja kvöldi Iceland Airwaves-veislunnar á föstudagskvöld. Daniel Bjarnason og Goat komu á óvart.

Jón Adalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Heilmikið stuð var á þriðja kvöldi tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves í gær, föstudag. Gnægtarborðið svignaði undan kræsingum enda tróð upp svo mikill fjöldi tónlistarmanna og hljómsveita að vanda þurfti valið - og það aðeins til að sjá og heyra brot af því sem í boði var.

Tónleikaveislan byrjaði hjá undirrituðum með tónleikum John Grant í Silfurbergi Hörpunnar. Ég hlakkaði talsvert. Þótt ég eigi báðar plöturnar hans og hlustað á þær í ræmur hef ég aldrei áður farið á tónleika með Grant, ýmist misst af þeim eða uppselt löngu áður en mér datt í hug að hlaupa á eftir miða. Grant er þaulvanur og hljómsveitin orðin eins slípuð og mögulegt er. Salurinn var pakkfullur á stuttum tíma. John Grant og félagar buðu upp á bland af því besta af báðum plötum hans: Queen of Denmark og Pale Green Ghosts. Gestasöngvari bættist hópinn þegar bandið tók Glacier. Ég náði ekki nafninu þegar Grant kynnti meðsöngvarann til  sögunnar. En hvílík rödd, hún var með eindæmum, hreint, tær en brothætt eins og söngvarinn sjálfur sem mætti alveg bæta utan á sig. 

Þetta voru flottir tónleikar, þótti mér. Þeir sem áður hafa séð Grant á sviði tóku undir það en samt ekki þeir bestu, kósíheitin hafi vantað. Það er sosum eðlilegt enda ekki  hægt að fara fram á slíkt í Hörpu. En ég var mjög sáttur enda náði Grant góðum tengslum við áhorfendur.

Óryðgaðir í Apparatinu

Tónleikar Apparat Organ Quartet voru næstir á dagskrá. Sigið var á seinni hluta þar á bæ. Þeir Apparat-menn ryðga greinilega lítið þótt þeir komi ekki oft fram. Krafturinn var ótrúlegur í þeim fjórum á sviðinu. Ég náði um fjórum lögum þar til síðasti tónninn var sleginn á hljómborð Apparts.

Eftir þessa þrusandi lyklaborðsveislu var haldið á Omar Souleyman frá Sýrlandi. Pakkfullt var í sal Souleymans og greinilegt að mörgum þótti taktar hans góðir. Sá sýrlenski fór hins vegar eitthvað einkennilega ofan í mig, ég einfaldlega náði honum ekki og félaga hans sem töfraði tónlistina fram úr hljómborðum.

Klúður að missa af nútímatónlistinni

Daníel Bjarnason varð ofan á í Kaldalóni. Líkt og í fyrri tilvikum rambaði ég inn  þá miðja hjá Daníel. Þarna vissi ég ekki hvort ég ætti að vera eða láta mig hverfa. Tónlistin er krefjandi og nútímaleg en heillandi á sama tíma og töfrandi. Ég sat áfram og varð ekki svikinn þegar Mariam Wallentin úr Mariam The Believer trítlaði inn á sviðið nokkrum mínútum eftir að hún hafði lokið tónleikum sínum í Gamla Bíó. Rödd hennar var einfaldlega of góð - það hefði verið klúður að missa af henni.

Þegar hér var komið við sögu var klukkan meira en ellefu og Strigaskór nr. 42 og Dimma á fullu á Hressó. Ég varð að bíta í það súra epli að úti var skítakuldi og nennti ekki út. Í staðinn leit ég á sænsku hljómsveitina Goat. Bandið var á sínu síðasta lagi þegar ég gekk inn í salinn og blótaði í sand og ösku að hafa ekki komið fyrr. Tónlistin var blanda af 40 ára gömlu Santana-fúsjóni og Dungen. Þegar við bættist að bandið var gríðarlega þétt, búningar liðsmanna bandsins með þeim hressari og heilmikill hasar á sviðinu þá gat gátu tónleikar Goat ekkert orðið annað en frábærir - eða í það minnsta það sorglega litla sem ég sá af þeim.

Jón Aðalsteinn er blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Viðbót

Söngvarinn sem flutti Glacier með John Grant heitir Conor O'Brien. Sá er írskur, söngvari og stofnandi hljómsveitarinnar Villagers sem tróð upp í Gamla Bíó á föstudag. 

Stikkorð: Iceland Airwaves  • John Grant