*

Bílar 26. maí 2013

Greiddi 1,5 milljarð króna fyrir 60 ára gamlan Ferrari

Á meðan klassískar Ferrari bifreiðar eru ráðandi á uppboðsmörkuðum í Evrópu sækir Porsche í sig veðrið.

 Ónefndur aðili greiddi í gær 11,9 milljónir Bandaríkjadala, eða um 1,5 milljarð króna, fyrir Ferrari bifreið sem tók þátt í Le Mans kappakstrinum árið 1953 á uppboði sem fram fór við Lake Como á Ítalíu.

Samkvæmt frétt Bloomberg fréttaveitunnar höfðu uppboðshaldarar sett 6,5 milljónir dala (um 5 milljónir evra) sem upphafsverð á bílinn en eftir um 20 mínútna baráttu milli þriggja tilboðsgjafa var hann seldur á 9,2 milljónir dala auk gjalda sem samsvara um 11,9 milljónum evra. Um er að ræða rauðan V-12 340/375 MM Berlinetta sem framleiddur er af ítalska bílaframleiðandanum Ferrari. Nýlega seldist 1964 árgerð af sömu tegund á um 925 þúsund dali á uppboði í Belgíu.

Bloomberg greinir frá því að Ferrari sé í raun ráðandi á uppboðsmörkuðum á bifreiðum sem framleiddar eru á sjötta og sjöunda áratugnum. Þó hafa klassískir Porsche bílar hækkað nokkuð í verði að undanförnu en Porsche 911 bilinn fagnar 50 ára afmæli í ár. Þeir eru þó að fara á mun lægra verði en fyrrnefnd Berlinetta bifreið. Þannig seldist í gær á uppboði í Belgíu 1974 árgerð af Porsche Carrera bifreið á um 440 þúsund evrur eða um 70,7 milljónir króna á uppboði. Dýrasti Porsche 911 bifreið sem seld hefur verið á uppboði var slegin fyrir 1,4 milljón Bandaríkjadala (um 174 milljónir króna) á RM uppboðinu í Monterey í Kaliforníu árið 2011. Þar var um að ræða 1970 árgerð sem einnig var ekið í Le Mans kappakstrinum. 

Þessi 1974 árgerð af Porsche Camera RS, sem er einn af 109 framleiddum, var sleginn á 437 þúsund evrur á uppboði í Belgíu í gær.

Hér má sjá 1968 árgerð af Lamborghini Miura P400 sem sleginn var á 575 þúsund evrur á uppboði í Belgíu í gær.

Stikkorð: Ferrari  • Porsche