*

Sport & peningar 10. september 2018

Greip í bremsuna á 225 km hraða

Ítalskur vélhjólakappi hefur verið rekinn úr keppni eftir að hafa gripið í bremsuna hjá keppinaut í miðri keppni.

Grand Prix vélhjólakappinn Romano Fenati hefur verið rekinn úr liði sínu eftir að hafa gripið í bremsu keppinautar á 225 km hraða. Lið vélhjólakeppandans frá Ítalíu, Marinelli Snipers hefur rift samningi sínum við Fenati, en upphaflega var hann dæmdur úr tveim keppnum fyrir fólskubragðið eins og hann kallar það sjálfur.

Fenati hefur keppt í Grand Prix vélhjólamótaröðini frá árinu 2012, en hann var jafnframt rekinn frá félaginu R46 vegna hegðunarbrota árið 2016. Ítalinn komst jafnframt í fréttir árið 2015 fyrir að hafa sparkað í finnska keppandann Niklas Ajo í upphitunarkeppni í Argentínu.

 

 

Biðst afsökunar á handahreyfingunni

Í yfirlýsingu frá liði hans er beðist afsökunar á atvikinu sem hæglega hefði getað hætt lífi og limum keppinautarins og í raun hans sjálfs. Jafnframt hefur vélhjólaframleiðandinn MV Agusta ákveðið að rifta samningnum við Fenati. „Þetta er versta og sorglegasta sem ég hef séð í vélhjólakeppni,“ sagði Giovanni Gastiglioni forstjóri vélhjólaframleiðandans.

 Fenati hefur í dag boðist afsökunar á athæfi sínu sem hann kallar óafsakanlega handahreyfingu. Í morgun með skýrum huga vildi ég óska að þetta hefði bara verið slæmur draumur,“ sagði Fenati m.a. í yfirlýsingu og sagðist vilja biðja afsökunar alla sem trúðu á hann og urðu fyrir vonbrigðum með athæfi hans.

„Því miður er persónuleiki minn hvatvís, en það var alls ekki ætlun mín að valda öðrum vélhjólamanni eins og mér sjálfum skaða. Ég vil ekki réttlæta gerðir mínar, ég veit að handahreyfingin var ekki réttlætanleg, ég vil biðja alla afsökunar.“

Samkvæmt frétt Guardian um málið sagði breski vélhjólakeppandinn Cal Crutchlow að banna ætti hinn 22 ára gamla Fenati fyrir lífstíð úr keppni. „Við getum ekki gert þetta við annan vélhjólakeppanda. Við erum að leggja líf okkar í nógu mikla hættu nú þegar.“