*

Bílar 12. ágúst 2013

Gríðarlega flott leiktæki

BMW i8 verður undratæki ef marka má tölur sem framleiðandinn hefur birt um eyðslu.

BMW hefur lýst því yfir að hinn nýi BMW i8 verði framsæknasti sportbíll heimsins. Þetta eru stór orð en alla vega er ljóst að rafmagnssportbíllinn i8 verður ekki bara gríðarflott leiktæki heldur einnig undratæki ef marka á tölur frá BMW. Samkvæmt bæverska lúxusbílaframleiðandanum á BMW i8 aðeins að eyða 2,5 lítrum af eldsneyti á hundraðið.

Þrátt fyrir það á i8 að vera mjög öflugur bíll sem skartar feykimiklu afli. Bíllinn verður aðeins 4,5 sekúndur í hundraðið ef marka má tölur frá Bæjaralandi. BMW i8 er sérlega léttur bíll sem aðallega er smíðaður úr áli og trefjablöndum og er með rafhlöður og brunavél sem skila samtals 350 hestöflum.

Bíllinn er langt kominn að framleiðslu og stefnt er á að hann komi á markað á næsta ári. Búist er við að verð hans verði kringum 15 milljónir króna í heimalandinu Þýskalandi.

Stikkorð: BMW  • BMWi8