*

Bílar 19. september 2012

Gríðarlega kraftmikill Porsche Cayenne S í dísilútgáfu

Porsche ætlar fljótlega að kynna til leiks nýjan Cayenne S í dísilútfærslu sem verður öflugasti dísiljeppinn á markaðnum.

Róbert Róbertsson

Porsche mun brátt kynna til leiks nýjan Cayenne S í dísilútfærslu sem verður öflugasti dísiljeppinn á markaðnum. Hann er með 4,2 lítra, 8 sílindra biturbo vél sem skilar 382 hestöflum og togið er ekkert smáræði eða alls 850 Nm. 

Nýi Cayenne jeppinn kemst úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 5,7 sekúndum sem er magnað fyrir svona stóran og þungan bíl. Hámarkshraði jeppans er 252 km. Þrátt fyrir gríðarlegan kraft og afl þá hefur hinum snjöllu verkfræðingum þýska lúxusbílaframleiðandans tekist að halda eldsneytiseyðslunni í þokkalegum málum en jeppinn eyðir að meðaltali 8,3 lítrum í blönduðum akstri samkvæmt upplýsingum frá Porsche. Koltvísýringslosunin er 218 g/km sem er kannski ekkert óeðlilegt þegar mið er tekið af aflinu og stærð bílsins. 

Aksturseiginleikar bílsins eru sagðir framúrskarandi eins og Porsche er von og vísa en Cayenne hefur ávallt fengið mjög góða dóma fyrir slíkt sem og flotta hönnun þar sem ekkert er til sparað. Það sama er uppi á teningnum í hinum nýja bíl samkvæmt myndum að dæma. Mikið er lagt upp úr flottu efnisvali og smart hönnun í innanrýminu. Bíllinn mun koma á markað í janúar á næsta ári.

Stikkorð: Porsche Cayenne