*

Veiði 25. júní 2015

Gríðarlegar sveiflur í laxveiði á milli ára

Ekki hafa áður sést jafnmiklar breytingar í veiði milli ára hér á landi segir í skýrslu Veiðimálastofnunar.

Alls veiddust 33.598 laxar hér á landi í fyrra samkvæmt nýrri skýrslu Veiðimálastofnunar, sem ber heitið Lax- og silungsveiðin 2014. Þetta er örlítið meira en bráðabirgðatölur stofnunar frá síðasta ári gáfu til kynna en samkvæmt þeim var veiðin í fyrra 32.400 laxar.

Að meðaltali hafa veiðst 40.848 laxar hér á landi síðan 1974 og var veiðin í fyrra því töluvert undir því meðaltali. Frá 2005 til 2014 hafa að meðaltali veiðst 58.004 laxar og var veiðin því augljóslega langt undir því meðaltali. Þess má geta að árið 2013 var veiðin vel yfir tíu ára meðaltalinu enda veiddust þá 68.042 laxar. Laxveiðin undanfarin ár hefur verið gríðarlega sveiflukennd.

„Laxveiði á stöng sumarið 2014 minnkaði mikið milli ára og var einungis um helmingur þess sem hún var 2013 en lík því sem veiðin var 2012,“ segir á vef Veiðimálastofnunar. „Ekki hafa áður sést jafnmiklar breytingar í veiði milli ára hér á landi. Skýringar þess er einkum að leita í breytingum á afföllum laxa í sjó en ekki er þekkt með vissu hvaða þættir eru þar ráðandi. Þegar um jafnmiklar sveiflur er að ræða eru fá viðmið sem nota má til að spá fyrir um nýhafið veiðitímabil.“ 

Nánar er fjallað um málið í Veiði, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.