*

Matur og vín 1. maí 2012

Grill

Maískólfar Hrefnu Sætran verða himneskir þegar þeim er velt upp úr ósöltu smjöri og grillaðir á miðlungshita í 20 mínútur.

Hrefna Rósa Sætran

Hrefna Rósa Sætran skrifar reglulega um matarmenningu í Viðskiptablaðið. Pistillinn hér að neðan birtist 27. apríl 2012.

 

****

Mér finnst ótrúlega gaman að grilla. Hefur alltaf fundist það. Það eru stór grill á báðum veitingastöðunum mínum og það er ekkert smá gaman að elda á þeim. Risastór kolagrill með alvöru kolum sem hitna upp í 1200 gráður og halda þeim hita endalaust. Maturinn grillast mjög fljótt á þessum grillum og er safaríkur að innan þar af leiðandi. Mér finnst betra að grilla matinn minna heldur en meira því maður getur alltaf kastað matnum aftur á grillið en maður getur ekkert gert þegar hann er ofeldaður.

Það er mikið grillað líka heima hjá mér allan ársins hring en kærastinn minn grillar oftast heima og ég má eiginlega ekki skipta mér mikið af því. Það er frekar erfitt en ég læt það eftir honum. Sem betur fer þá er hann frekar góður að grilla svo þetta sleppur. Það sem mér finnst skemmtilegast að gera heima er að fullkomna þessa litlu hversdagshluti. Ég er til­ dæmis búin að hugsa mikið hvernig best sé að grilla maís sem kærastinn minn grillar auðvitað en ég hef fengið að skipta mér af þar. Útkoman er orðin frábær.

Við grillum eiginlega alltaf mais fyrir þá sem koma til okkar í grill og það spyrja allir hvernig við náðum maisinum svona góðum. Mig langar til að deila með ykkur þessari einföldu aðferð.

Við kaupum frosna hálfa maiskólfa sem við setjum í álform sem ætlað eru fyrir jólaköku. Svo það eru tveir maiskólfar í einu álformi. Svo set ég 80 g af ósöltu smjöri í álformið og það fer á grillið. Ég byrja á því að hafa það á háum hita þar sem smjörið bráðnar. Svo fer það á miðlungs hita og ég sný maísinum mjög reglulega í 20 mínútur þar til hann hefur tekið lit allan hringinn.

Með þessari aðferð er maisinn alltaf í smjöri og helst safaríkur. Svo velti ég honum vel upp úr smjörinu, sting í hann höldum og krydda með hima­ læjasalti.

Besti mais í heimi!

Stikkorð: Hrefna Sætran  • Grill  • Uppskriftir