*

Matur og vín 8. maí 2016

Grilltímabilið að hefjast

Með hækkandi sól draga margir út grillið en nauðsynlegt er að gæta að því að það sé í góðu standi fyrir sumarið.

Gunnar Ingi Ágústsson

Aðal grilltímabilið fer nú í hönd en með hækkandi sól þarf að huga að viðhaldi grilla svo þau séu í nægilega góðu standi fyrir átök sumarsins.

Einar Long er framkvæmdastjóri Grillbúðarinnar en hann segir að viðhald grilla sé mismunandi eftir því hvernig grill er um að ræða. „Það þarf náttúrulega alltaf að fara yfir grillið og gæta þess að brennarar og annað séu í lagi til að grillið virki á eðlilegan hátt. Það þarf að skoða hvort það sé jafn logi alls staðar á brennaranum eða hvort það sé komin rifa í hann, en ef svo er þá þarf að skipta um brennarann. Ef menn þrifu það ekki ekki fyrir veturinn þá þarf að þrífa það vel. Við erum með alls konar hreinsiefni fyrir það en gamli góði uppþvottalögurinn og heitt vatn virkar líka mjög vel. Það getur verið ágætt að hita grillið aðeins, slökkva síðan á því aftur. Hitinn mýkir fituna upp og þá er auðveldara að hreinsa grillið, fyrst með því að skafa burtu mestu fituna og þar er síðan þrifið með fituleysandi efni.“  

Olíubornar pottajárnsgrindur

Einar segir að best sé að hafa pottajárn í grindunum á grillinu, en þær þarfnist þó einnig viðhalds. „Ef grindurnar eru úr pottajárni þá þarf að olíubera þær með matarolíu. Það getur verið þægilegt að nota Pam fitusprey í spreybrúsa til að verja grindurnar. Það þarf að gera það reglulega, sérstaklega fyrir veturinn til að verja grindurnar gegn raka þegar maður notar grillið minna. Það er líka í raun gott að setja matarolíu á grindurnar fyrir hverja grillun.“ Einar segir að einnig þurfi að gæta að ákveðnum öryggisatriðum fyrir sumarið. „Það þarf að gæta að gasleiðslum og sjá hvort þær séu ekki í lagi. Ef maður beygir leiðsluna og það koma í ljós sprungur er nauðsynlegt að skipta um hana. Einnig þarf að hafa í huga gúmmí- pakkningu á þrýstijafnara.“ Einar segir að sprungur í gasleiðslu séu merki um að hún geti farið að leka innan tíðar. „Það þarf að skipta um þessar leiðslur reglulega, allavega á svona þriggja til fjögurra ára fresti.“

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Grill  • Grillbúðin  • Einar Long