*

Bílar 26. september 2021

Grjótharður töffari

Nýr D-MAX er gjörbreyttur bíll frá grunni miðað við forverann. Hann er orðinn stærri í alla kanta og aflmeiri undir húddinu.

Róbert Róbertsson

Ný kynslóð Isuzu D-MAX hefur vakið athygli enda aflmikill pallbíll hér á ferðinni. D-MAX hefur verið vinsæll hér á landi, ekki síst meðal atvinnurekenda, verktaka og opinberra aðila á borð við sveitarfélög. Það er ekkert skrítið því þetta er hörkuduglegur vinnuþjarkur eins og kom í ljós í reynsluakstri.

Nýr D-MAX er gjörbreyttur bíll frá grunni miðað við forverann. Hann er orðinn stærri á alla kanta og aflmeiri undir húddinu. Hönnunin er flottari en áður og greinilega meira lagt í hana. Að framan eru LED-ljósin mjög flott með stórt og sterklegt grillið sem gefur bílnum kraftalegan svip. Bíllinn hefur líka tekið miklum framförum í innanrýminu sem er vel úr garði gert. Í miðju mælaborðsins er 9,0 tommu miðlægur snertiskjár með með Apple Car Play og Android Auto, og mælaklasinn er með stóran 4,2 tommu stafrænan skjáskjá með stafrænum hraðamæli.

163 hestafla dísilvél

Isuzu D-MAX kemur í þremur útfærslum í nýju kynslóðinni. Basic-útgáfan er vinnuþjarkur fyrir vinnandi menn, Pro-útgáfan er með aðeins meiri þægindi og svo er Lux-útfærslan sem er hlaðinn aukabúnaði. Við prófuðum Lux-útgáfuna í reynsluakstrinum og hann er með leðursætum og fleiri þægindum sem gefur bílnum lúxusímynd. Ekki það að vinnuþjarksímyndin minnki neitt við lúxusinn, alls ekki. Sama dráttargeta og pallurinn á sínum stað. Allt eins og það á að vera.

Isuzu D-Max er með öflugri 4 sílindra dísilvél. Vélin skilar 163 hestöflum og togið er alls 450 Nm. Hvort tveggja meira en áður. Bíllinn er fjórhjóladrifinn að sjálfsögðu og sjálfskiptur. Það má alveg segja að þetta sé pallbíll af gamla skólanum en með nýju yfirbragði og hönnun og meiri tækni. Eyðslan er frá 9,2 l/100 km og CO2 losunin er frá 241 g/100 km samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda.

Kallar ekki allt ömmu sína

Aksturseiginleikarnir koma nokkuð á óvart. Hann er mýkri en ég átti von á og stendur sig vel í akstri hvort sem er á rólegri ferð í borgartraffíkinni eða á meiri hraða þegar komið er út fyrir borgarmörkin. Hann liggur ágætlega í beygjum ef ekki er farið of geyst í þær. Fjöðrunin er ágæt og stýringin sömuleiðis. Sætin í Lux-útgáfunni eru mjög góð og með góðan stuðning fyrir líkamann. Plássið er mjög gott frammí og eins í aftursætunum.

D-MAX er góður í torfærum og það er þar sem hann er raunar eins og á heimavelli. Bíllinn er með 4x4 mismunadriflás. Þetta er grjótharður töffari sem fór létt með erfiðan malarslóða í sveitinni þegar hann var prófaður þar. Bíllinn er með 80 cm vaðdýpt og 24 cm undirlægsta punkt. Bíllinn er með 3,5 tonna dráttargetu sem er með því besta. Burðargetan á pallinum er 1.065 kg. Þetta eru mjög flottar tölur og sýnir úr hverju hann er gerður. Þetta er pallbíll sem kallar ekki allt ömmu sína.

Hér virðist vera kominn bíll sem ætti að henta vel til að draga hestakerrur eða hjólhýsi og fer létt með það.

Vel útbúinn pallbíll

Meðal staðalbúnaðar í Isuzu DMAX, má nefna aðdráttar- og veltistýri, blindhornaviðvörun, stöðugleikastýringu, akreinavara, aðvörun vegna hliðarumferðar, sjálfvirka neyðarhemlun og hemlajöfnun, neyðarakreinastýringu auk brekkuaðstoðar og stöðugleikabúnaðar fyrir drátt á aftanívagni.

Heilt yfir mjög mikill staðalbúnaður en tilviðbótar í Luxútfærslunni er hann með 8 hátölurum, akreinastýringu, skynvæddum hraðastilli svo eitthvað sé nefnt.

Í Basic útfærslu kostar DMAX frá 7.090.000 kr. en í dýrustu Lux útfærslu eins og reynsluekið var kostar hann á 8.690.000 kr.

Fjallað er um málið í fylgiritinu Atvinnubílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Isuzu D-MAX  • D-MAX