*

Menning & listir 6. apríl 2016

Grundvallareiginleiki hluta

Sýningin Staðir opnar laugardaginn 9. apríl í höfuðstöðvum Arion banka.

Eydís Eyland

Ný sýning á verkum Kristins E. Hrafnsonar opnar á laugardaginn næstkomandi í Arion banka Borgartúni 19.

Kristinn E. Hrafnsson (f. 1960) er þekktur fyrir skúlptúrverk í opinberu rými, verk sem þúsundir manna sjá og upplifa á hverjum degi. Kristinn vinnur einnig verk á pappír sem verða til samhliða skúlptúrgerðinni, oft afleidd af skúlptúrum en stundum forsenda þeirra og sýna aðra hlið á honum sem listamanni. Flest verk Kristins eru tilbrigði við grundvallareiginleika hluta eins og staði, stefnur, hreyfingu, áttir og tíma, sem hafa jafnmikla þýðingu hvort sem er í listum, verkviti eða vísindum. Þessir eiginleikar fléttast saman í listaverkum Kristins með listrænu ímyndunarafli, heimspekilegu innsæi og óaðfinnanlegu handverki.

Á sýningunni er að finna verk frá árunum 1988-2016, þar á meðal verk sem hafa ekki verið sýnd áður á Íslandi.

Sýningin stendur yfir frá 9. apríl 2016 - 12. ágúst 2016.