*

Menning & listir 1. janúar 2016

Grunnmyndin verður að vera góð

Rut Káradóttir innanhússarkitekt er þjóðinni að góðu kunn fyrir hönnun sína.

Ásta Andrésdóttir

Rut Káradóttir innanhússarkitekt hefur leikið lykilhlutverk við mótun híbýla Íslendinga undanfarin ár, jafnt heimili sem vinnustaði. Skýr form, einfaldleiki og vandað efnisval einkennir hönnun hennar og eru atriði sem hún kveðst leggja mikið upp úr. „Mér finnst einnig algjört lykilatriði að vanda vel til við að teikna góða grunnmynd fyrir húsnæðið í upphafi þannig að skipulagið gangi sem best upp. Líklega má segja að þessi áhersla á grunnmyndina sé stór hluti af mínum stíl, enda einn mikilvægasti þátturinn í starfi okkar innanhússarkitekta. Ef grunnmyndin er góð verður allt annað einfaldara og hlutirnir ganga betur upp bæði út frá hönnunarlegu og praktísku sjónarmiði,“ segir hún.

Í gegnum tíðina hefur Rut tekið að sér fjölbreytt verkefni þó svo að heimilishönnun hafi verið fyrirferðarmest. Hún fæst við allt frá stuttum ráðgjafaverkefnum og upp í umsjón heildarhönnunar, húsgagna- og efnisvals fyrir heilu einbýlishúsin eða fyrirtækin. Áttu þér eftirlætisverkefni á ferlinum hingað til? „Ég hef komið að ótal verkefnum og mörg þeirra eru í miklu eftirlæti. Það eru ekki endilega einhver stór verkefni sem standa upp úr, heldur líklega frekar verkefni þar sem ég hef unnið með og kynnst yndislegu fólki sem jafnvel hafa orðið vinir fyrir lífstíð. Draumaverkefni mín eru líklega þau þar sem ég fæ fullt traust frá viðskiptavinunum og fæ tækifæri til að klára þau alla leið.“

Nánar er fjallað um málið í tímaritinu Áramót sem kom út 30. desember síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Rut  • Káradóttir