*

Hitt og þetta 30. ágúst 2007

GSM samband um haf og fjöll

Talsamband um GSM síma mun nást langt á haf út umhverfis landið og víðast hvar á hálendinu með tilkomu nýs langdrægs GSM farsímakerfis Vodafone. Alls verða settir upp um 40 langdrægir GSM sendar á næstu mánuðum og er undirbúningur verkefnisins á lokastigi. Búið er að velja staðsetningar fyrir flesta sendana um allt land og ráðgert er að uppbyggingu kerfisins ljúki á fyrstu mánuðum næsta árs. Þetta kemur fram í frétt frá félaginu.

?Langdræga kerfið er hrein viðbót við núverandi GSM kerfi og raunar bylting í öryggismálum fyrir marga sjófarendur og ferðalanga á hálendinu. Fólk getur einfaldlega notað GSM símann sinn miklu víðar en hingað til og þarf ekki að skipta um símtæki þegar farið er út á sjó eða upp á hálendi,? segir Árni Pétur Jónsson forstjóri Vodafone í frétt frá félaginu. Enginn aukakostnaður fellur á símnotandann við notkun á hinu nýja langdræga kerfi, því sama gjaldskrá mun gilda fyrir símtöl í langdræga GSM kerfinu og því hefðbundna.

Tilraunir með þennan langdræga búnað hafa gengið vel á sjó og landi. GSM samband hefur náðst allt að 100 kílómetra á haf út og nýtist því vel minni fiskibátum, skemmtibátum og kajakræðurum svo dæmi séu nefnd. Langdrægt farsímakerfi Vodafone gjörbyltir einnig fjarskiptum á hálendi Íslands því GSM samband mun nást á helstu fjallvegum landsins.

Vodafone á Íslandi er fjarskiptafyrirtæki í eigu Teymis hf. sem skráð er á OMX Nordic Exhange á Íslandi. Starfsmenn Vodafone eru um 350 talsins og þjónusta viðskiptavini á heimilum og hjá fyrirtækjum um land allt með farsíma, síma, nettengingar og sjónvarp. GSM þjónusta Vodafone nær til 98% landsmanna og með samstarfi við Vodafone Group, eitt öflugasta fjarskiptafyrirtæki í heimi, er viðskiptavinum Vodafone tryggð örugg farsímaþjónusta um allan heim.