*

Bílar 16. desember 2012

GT86 sankar að sér verðlaunum

Jeremy Clarkson í Top Gear-þáttunum segir Toyota GT86 sýna að ódýrir bilar geti líka verið skemmtilegir.

Róbert Róbertsson

Sportbíllinn Toyota GT86 sankar að sér verðlaunum um allar trissur þessa dagana. Hann var nýverið kjörinn bíll ársins hjá tímaritinu Top Gear en Jeremy Clarkson, einn þriggja stjórnanda sjónvarpsþáttarins vinsæla, segir að þessi bíll sýni og sanni að ódýrir bílar geti líka verið skemmtilegir.

GT86 hefur einnig verið kjörinn bíll ársins í Ástralíu, en þar fékk hann líka verðlaun sem „Performance Car of the Year“ fyrir bíla undir 60.000 dollurum. Hann vann einnig „People's Choice“-verðlaunin hjá Áströlum. Þýska tímaritið AutoBild Sportcars valdi GT86 sem sportbíl ársins og í Írlandi fékk hann verðlaunin „Continental Performance Car“. Mjög góð frammistaða hjá skemmtilegasta bíl sem Toyota hefur sent frá sér í áraraðir.

GT86 er búinn tveggja lítra, 200 hestafla Boxer vél og hröðun er 7,6 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið í beinskipta bílnum. Róbert Róbertsson, bílablaðamaður Viðskiptablaðins, reynsluók GT86 á Spáni í sumar og var mjög ánægður með hann.

„Kjarninn í þessum bíl eru mjög góðir og sportlegir aksturseiginleikar. Bíllinn er eins og límdur við veginn, stífur í fjöðrun en þó ekki hastur. Sportleg fjöðrun sem fer bílnum auðvitað vel. Með afturdrifinu og fínum undirvagni er hrein unun að keyra hann. Það var gefið vel í á brautinni og bíllinn lá sem límdur við veginn. Þar spilar afturdrifinn vélin og lár þyngdarpunktur hennar stórt hlutverk,“ sagði Róbert m.a. í dómi sínum um bílinn.

Hér má sjá myndband af bílnum

Stikkorð: Toyota GT 86