*

Menning & listir 19. febrúar 2013

Guardian: Græjurnar of hátt stilltar á Sónar Reykjavík

Menningarpenni breska dagblaðsins Guardian segir Hörpuna góðan tónleikastað en efast um að hún henti fyrir tónlistarhátíð.

Uppröðun tónlistaratriða á raftónlistarhátíðinni Sónar Reykjavík um síðustu helgi var einkennileg, að mati Rebeccu Nicholson, menningarpenna hjá breska dagblaðinu Guardian. Hún segir á vef blaðsins höfuðborgina hafa alla burði til að halda hátíðina hér. Á hinn bóginn sé ýmislegt sem þurfi að stilla betur af svo gestir fá það á tilfinninguna að þeir séu í partíi. Nicholson segist hafa farið á tónleikaður í Hörpu og lofar staðinn. Á móti efast hún um að húsið henti fyrir tónlistarhátíð á borð við Sónar. 

Skrýtin dagskrá

Á meðal helstu galla segir Nicholson þá að hressustu atriðin, svo sem Sísí Ey, hafi troðið upp alltof snemma á fyrsta degi hátíðarinnar á föstudag og þau daufari tekið við.  Þá bendir Nicholson á að plötusnúðar hafi  byrjað að koma fram klukkan átta á föstudeginum. Kjallarinn hafi verið tómur enda spili þeir iðulega þegar gestir á staðnum eru komnir í gírinn. Nicholson segir að á móti hafi rólegri atriðin, svo sem tónleikar Ásgeirs Trausta, verið með þeim seinni og byrjað klukkan 22 á laugardeginum. Um svipað leyti langar flesta til að hreyfa skankana - nokkuð sem tónlist Ásgeirs Trausta býður ekki upp á.

Fulli sjónvarpsmaðurinn í Ghostigital

Hitt vandamálið er hávaðinn, að mati Nicholson. Hún tekur fram að hún hafi farið á allmargar tónlistarhátíðirnar sem hafi komið illa við heyrn hennar og því sé kærkomið að á sumum tónleikum bjóði tónleikahaldarar gestum upp á að fá eyrnatappa til að dempa herlegheitin. Nicholson segir nokkrar hljómsveitir hafa í raun nýtt sér það sem var í boði og tekur Ghostigital sem dæmi. Hún líkir borgarfulltrúanum Einari Erni Benediktssyni við drukkinn sjónvarpsmann á sjöunda áratug síðustu aldar sem muldri út í eitt í bland við bjagaða tónlist.

Nicholson viðurkennir reyndar að hún sé enginn sérstakur aðdáandi nýstirnisins James Blake. Henni finnst þó stíll Blakes truflandi. 

Nicholson er hins vegar ekki svartsýnin uppmáluð. Hún segir ýmislegt hafa komið sér á óvart og tekur sérstaklega fram félagana í Gluteus Maximus, þá DJ Margeir og President Bongó og þýsku hljómsveitina Diamond Version.

Hér má sjá Ghostigital koma fram á Sónar Reykjavík.