*

Bílar 23. júní 2017

Gullfallegur Geländewagen

Bjarni Þorgilsson er mikill áhugamaður um bíla og ekki síst eldri bíla sem hann hefur sérlega gaman af að gera upp.

Róbert Róbertsson

Bjarni Þorgilsson er mikill áhugamaður um bíla og ekki síst eldri bíla sem hann hefur sérlega gaman af að gera upp. Hann gerði nýverið upp 26 ára gamlan Mercedes-Benz G-Class jeppa af mikilli fágun og útkoman er mjög glæsileg. G stendur fyrir Geländewagen sem þýðir torfærubíll á þýsku. Jeppinn er meðal fárra fjöldaframleiddra bíla sem eru handsmíðaðir.

„Þetta er 1991 árgerð af G-Class. Ég eignaðist bílinn fyrir rúmum tveimur árum og hafði þá verið að eltast við hann í sjálfsagt önnur tvö ár á undan. Jeppinn var þá norður í landi og var orðinn illa farinn þar sem hann stóð bara úti við og grotnaði niður. Það var búið að rífa úr honum  vélina til að nota í snjóbíl.  Ég náði loks að kaupa hann og við tók mikið og langt ferli að gera hann upp. Ég átti áður eldri G-Class í styttri útgáfunni og ákvað að selja þann bíl og nota peningana til að gera þennan upp,” segir Bjarni.

Hægt að fá alla varahluti í gamla Mercedes-Benz bíla

„Ég var svo heppinn að fá gott húsnæði hjá góðum vini undir aðgerðina sem tók alls níu mánuði. Upphaflega stóð til að bíllinn  yrði þar í tvær vikur meðan grindin færi undan yfirbyggingunni en svo fór að bíllinn var allur unnin þar.  Þetta góða húsnæði og góð vinátta var raunar ástæðan fyrir því að ég fór í svona mikla yfirhalningu á bílnum því í byrjun var ég bara að spá í minni háttar breytingar, laga það sem laga þyrfti nauðsynlega og bílskúrsmálun. Ég tók bílinn hins vegar algerlega í gegn frá a til ö á þessum níu mánuðum sem uppgerðin tók.

Ég fór í bílaumboðið Öskju með söluandvirði hins bílsins og pantaði varahluti í þennan. Allt frá pedalagúmmíum og nýjan gírstangarhnúð upp í stærri hluti svo sem afturbrettin og afturhornin. Ég skipti um öll gúmmí í undirvagninum, boddípúða, mótorpúða o.s.frv. Bílaumboðið Askja á heiður skilið fyrir að aðstoða mig vel í þessu verkefni. Án aðstoðar fyrirtækisins og velvildar hefði þetta ekki  verið gerlegt. Svo er bara svo gott að panta varahluti í Mercedes-Benz. Þeir eiga allt til í þessa gömlu bíla. Það er ómetanlegt þegar verið er að gera upp gamla bíla. Ég fór með tæpa milljón í Öskju í fyrstu atrennu. Það var bara byrjunin,” segir Bjarni og glottir.

Fann 3 lítra vél úr E-Class í jeppann

„Ég reif yfirbygginguna af og lagfærði smávægilegt ryð í botni hennar. Grindina þurfti einnig að laga örlítið eftir öll þessi ár og svo var hann vélarlaus þegar ég fékk hann þannig að eitthvað varð að finna sem passaði í húddið. Ég fann með aðstoð vinar míns Rúnars Sigurjónssonar í Bíla Doktornum gamlan E-Class leigubíl, árgerð 1997, sem hafði verið ekinn 450 þúsund kílómetra var vélin tekin úr honum og setti í jeppann. Ég fékk síðan  gírkassann úr öðrum Benz og það aftur með aðstoð Rúnars. Þetta kom einhvern  veginn allt til mín. Það var eins örlögin hefðu sett þetta svona upp að á þessum tímapunkti átti ég að kaupa þennan jeppa og gera hann upp. Þetta var eiginlega half ótrúlegt allt saman, hjálpin kom úr öllum áttum.”

Bjarni segir að fimm daga vikunna hafi hann unnið í jeppanum. Hann var mættur eftir vinnu og vann í bílnum til klukkan 10 á kvöldin. „Þetta reyndi mikið á langlundargeð Kristínar Sunnu unnustu minnar, sem er þó mikil bílaáhugakona. Hún fékk ekki að sjá mikið af mér þessi kvöld nema að hún kæmi í heimsókn til mín og Geländewagen,” segir hann og brosir.

Nostrað við jeppann

„Ég ákvað að taka þetta með áhlaupi í staðinn fyrir að vera að dútla mér í þessu í einhver fimm ár og verða að lokum hundleiður á verkefninu. Ég var búinn að gera einn G-Class upp áður og var því reynslunni ríkari. Ég vissi að hverju ég gekk og það var mikil hvatning að fá gott húsnæði til verksins því ekki vildi ég sóa tímanum og ég held að þessar aðstæður hafi einnig agað verkið, mæta  sem oftast, gera tossalista hvert kvöld og sópa og þrífa eftir hvert einasta sinn sem ég gerði eitthvað. Eldri G-jeppinn sem Bjarni átti var árgerð 1987, blár að lit en styttri útfærslan af jeppanum.

„Ég átti þann bíl í tæp 5 ár. Það var mjög fallegur jeppi og skemmtilegur en þessi er enn betri og  flottari. Það er líka búið að leggja enn meiri vinnu í þennan. Það er sannarlega búið að nostra við þennan jeppa, stiga á hann að aftan og toppgrind á þakið. Svo eru alls konar smáatriði eins og flöskuupptakari á bílnum að aftan sem er nauðsynlegur í útileguna. Austurríska skjaldamerkið prýðir svo báðar hliðar bílsins. Það er vel við hæfi að hafa þarna enda er G jeppinn framleiddur í Austurríki.”

Héldu að væri orðinn bjálaður

Bjarni ákvað að mála bílinn af alvöru fyrst hann hafði svo góða aðstöðu hjá vini sínum í stað þess að setja hann í létta bílskúrssprautun. „Ég hringdi í Guðjón Ágúst Sigurðsson vin minn í  Glitur til þess að biðja hann um góð ráð og hann kom til mín þar sem ég var með bílinn og eiginlega las mér pistilinn, ég skyldi bara klára að rífa af honum hurðar og bretti og vinna lokahnykkin af metnaði ein og hann orðaði það.  Ég er Guðjóni þakklátur fyrir að hafa komið þetta kvöld og eiginlega skipað mér að fara alla leið en ekki fúska lokasprettinn.  Það var þá ekkert annað að gera en að rífa hann enn meira, láta Jón í Dustless Blasting sandblása allt sem var komið minnsta ryð í.

Það fór svo að í Glitur fór bíllinn, þar sem hann var málaður stykki fyrir stykki af þeirra alkunnu fagmennsku. Jeppinn er málaður í sérstökum grænum lit sem ber heitið Agave Green 6880. Ég var búinn að pæla rosalega mikið í litnum á bílnum. Ég var með alls konar liti í huga. Nánast allt nema svartan lit sem var á bílnum fyrir. Það komu margir litir til greina, nánast allt litrófið en á endanum ákvað ég þennan græna lit eftir að hafa skoðað sennilega allar myndir af G bílum sem Google getur fundið.

Andri í Bílanaust hringdi í mig þegar þeir voru búnir að blanda litinn. Þeir héldu að ég væri brjálaður að ætla að mála bíl í þessum skelfilega lit. Sömu sögu er að segja af af  sprautuverkstæðinu þeir höfðu verulegar efasemdir þegar dósin var opnuð. Ég ákvað að treysta þeim fagmönnum sem völdu þennan lit fyrir fyrstu árgerðirnar af G Benz þrátt fyrir mikinn þrýsting um að þetta yrði hryllingur.  En ég er gríðarlega ánægður með útkomuna. Mér finnst jeppinn mjög flottur í þessum græna lit og hann fellur vel í landslagið á sumrin,” segir Bjarni og það er ekki annað hægt en að taka undir það með honum.

Bjarni ferðaðist á jeppanum um landið í fyrrasumar og nú er stefnt á ferðalög á honum í sumar. Ég er mjög ánægður með hann og hvernig hann stóð sig á ferðalögum um fallega landið okkar í fyrra. Ég lít á  hann fyrst og fremst sem ferðabíl á sumrin. Hann er alger jálkur og kemst mjög víða upp á hálendið. Hann er traustur og þungur og lætur fátt stoppa sig. Ég fór alls kyns vegaslóða á Suðurlandinu bratta og þrönga, en hann fór þetta eins og drekka vatn. Stundum var lullað í lægsta gír mjög erfiða en skemmtilega vegaslóða en það er hægt að  læsa öllum mismunadrifum í G jeppanum sé þess þörf þannig að þú missir aldrei eitt dekk í spól.”

Draumabíll í ferðalagið

Bjarni breytti vélinni úr tölvustýrðri í mekkaníska. „Ég þoli ekki tölvustýrðar vélar. Þú ert kannski staddur upp á hálendi og allt í einu byrjar að blikka gult ljós í mælaborðinu með mynd af skiptilykli og allt er stopp. Það er ekki fyrir mig. Ég vil bara hafa þetta einfalt.  Ef eitthvað bilar þá annað hvort skröltir það eða lekur og þá er bilanagreining fljót og viðeigandi viðgerð einföld. Þessi bíll er smíðaður þannig að sem allra flest er mekkanískt, og í raun er hægt að aka honum hvert sem er þótt rafkerfið væri tekið úr honum í heild sinni.”

Bjarni segir að jeppin sé alger draumabíll í ferðalagið. ,,Hann er frábær ferðafélagi og svo er hann líka svo mikill karakter. Það má segja um þessa gömlu bíla að þeir hafa miklu meiri karakter en nýju bílarnir. Með G jeppann er þetta bara svo sérstakt. Menn skilja þetta ekki fyrr en þeir hafa átt svona bíl eða fengið að ferðast í svona tæki. Ég var ekkert á leiðinni að eignast svona G jeppa og fannst hann ekkert sérstakur á sínum tíma fyrr en ég settist upp í svona jeppa fyrir einhverjum áratug hjá vini mínum Gunnari Erni Hjartarsyni sem þá hafði lokið uppgerð á einum þeim elsta sem til er hérlendis. Þá var ég alveg heillaður og ætlaði mér að eignast G-Class. Það varð úr að ég keypti bláa G-Classinn sem ég notaði til að ferðast mikið um hálendið  með dóttur minni Viktoríu Vilborgu og nú þennan. Sá bíll fékk að sjá snjó og vetrarfærð en ég ætla ekki með þennan í snjó og salt. Það eyðileggur allt.”

Ég hef átt marga flotta bíla í gegnum tíðina en þessi er einn sá alskemmtilegasti og einn af mínum uppáhaldsbílum,” segir Bjarni.

Stikkorð: jeppi  • Geländewagen  • Bjarni Þorgilsson