*

Tölvur & tækni 5. nóvember 2014

Gullsnjallúr frá Apple

Fréttir berast nú af því að Apple hyggist setja á markað snjallúr úr 18 karata gulli sem muni kosta ríflega 600 þúsund krónur.

Enn eru nokkrir mánuðir í að nýja snjallúrið frá Apple komi í verslanir. Ýmsar tímasetningar hafa verið nefndar í fjölmiðlum en líklegast er talið að sala hefjist næsta vor og að verð á hefðbundnu snjallúri verði um 350 dollarar eða um 43 þúsund krónur.

Auk þess að selja hefðbundin snjallúr, sem eru kölluð hefðbundin því ólin er úr plasti, berast nú fregnir af því að Apple hyggist bjóða upp á ólar úr stáli og 18 karata gulli. Talið er líklegt að stálúrið muni kosta um 1.000 dollara eða 124 þúsund krónur og gullúrið um 5.000 dollara eða 619 þúsund krónur.

Greint er frá þessum fréttum á ýmsum miðlum, meðal annars vefsíðu tímaritsins Time.