*

Sport & peningar 26. október 2018

Gunnar Nelson mætir Oliveira kúreka

Íslenski bardagakappinn hefur verið bókaður í næsta UFC slag 8. desember þar sem hann mætir Alex „Cowboy“ Oliveira.

Næsti bardagi Gunnars Nelson hefur verið bókaður og staðfestur á UFC 231 bardagakvöldinu sem fram fer í Toronto í Kanada. Andstæðingur Gunnars er Alex „Cowboy” Oliveira, öflugur brasilískur bardagamaður sem vermir þrettánda sætið á styrkleikalista UFC í veltivigtinni. Gunnar er í því fjórtánda.

Gunnar hefur verið fjarverandi frá því að hann beið vafasaman ósigur gegn argentínska augnpotaranum Santiago Ponzinibbio í júlí 2017 að því er segir í fréttatilkynningunni. Það verða því liðnir næstum 17 mánuðir þegar hann stígur í búrið í Scotiabank Arena íþróttahöllinni í Toronto 8. desember.

„Ég er búinn að vera bardagaklár í talsverðan tíma núna og það eina sem hefur vantað er andstæðingur og dagsetning. Við vorum búnir að pressa fast á UFC til að fá bardaga fyrir áramót og ég var í raun búinn að segja þeim að ég væri tilbúinn að mæta hverjum sem er. Það myndi ekki breyta mig neinu hvort andtæðingurinn yrði sjálfur heimsmeistarinn eða einhver nýgræðingur,” segir Gunnar og bætir við;

„Ég er því virkilega ánægður að fá Alex Oliveira. Hann er alvöru bardagamaður sem er búinn að sanna að hann á heima á meðal þeirra bestu, m.a. með sigri á fyrrum UFC veltivigtarmeistara. Hann er fyrir ofan mig á styrkleikalistanum í augnablikinu en ég mun gera mitt besta til að svo verði ekki mikið lengur.”

Gunnar og Alex eru jafnaldrar, báðir þrítugir og teljast reynslumiklir. Gunnar hefur barist 20 sinnum á sínum atvinnuferli og Oliveira 27 sinnum. Það er hinsvegar fátt annað líkt með þessum tveimur bardagamönnum. Gunnar er sagður yfirvegaður og útspekúleraður á meðan Oliveira þykir villtur og trylltur. Gunnar telur sig hins vegar ágætlega vel undirbúinn fyrir slíkan andstæðing;

„Þetta er náungi sem dálítil læti eru í kringum og í þeim bardögum, sem ég hef séð hann í, hefur einkennt hann hvað hann fer fram með miklu offorsi strax frá byrjun. Ég tel mig ansi vel undir slíkan andstæðing búinn enda hef ég æft talsvert mikið í gegnum tíðina með einum vel þekktum sem er þannig týpa.”

Til stóð að Gunnar myndi mæta Neil Magny á stóru bardagakvöldi í Liverpool fyrr á þessu ári en í undirbúningnum fyrir þann bardaga varð Gunnar fyrir hnémeiðslum og þurfti í kjölfarið að gangast undir aðgerð. Löng fjarvera frá búrinu og langt endurhæfingarferli er þó ekki eitthvað sem Gunnar telur að komi til með að hamla sér þegar á hólminn er komið:

„Mér líður mjög vel. Hnéð er orðið betra en nýtt og ég er ferskur. Ég hef lagt talsvert meiri áherslu á úthalds- og styrktaræfingar en ég hef gert áður og ég finn vel hvað það er að gera mér gott. Hvað sjálfar bardagaæfingarnar varðar þá er allt bara eins og það á að vera. Ég er umfram allt farinn að hlakka til að mæta í búrið og stimpla mig aftur inn hjá bardagaunnendum. Ég er búinn að vera lengi frá og nú er kominn tími til að halda ferðalaginu áfram,” segir Gunnar að lokum.

Stikkorð: Gunnar Nelson  • UFC  • Alex Oliveira