*

Menning & listir 26. nóvember 2013

Gunni og Kolla segja konur hafa vandaðan smekk

Eigendur og hönnuðir fatamerkisins Freebird segja föt fyrirtækisins henta vel fyrir jólin.

Edda Hermannsdóttir

Íslenskar konur hafa vandaðan smekk og hafa í gegnum tíðina alltaf viljað klæða sig fallega upp fyrir jólin segja þau Gunnar Hilmarsson og Kolbrún Petrea Gunnarsdóttir, fatahönnuðir og eigendur Freebird.

„Okkar hönnun hefur hentar afar vel fyrir íslensk jól. Sérstaklega sá hluti línunnar sem er skreyttur bróderi eða blúnduverki. Freebird-litirnir eru ofast í nokkuð föstu formi þar sem mjúkir og fallegir litir ráða ríkjum í bland við grátt og blátt. Fyrir jól er alltaf „dash“ af gulli og silfri til að skreyta. Það sem hefur komið á óvart í vetur er hversu dökkblái liturinn hefur komið sterkur inn í okkar línu.“ Aukahlutir verða áfram vinsælir að sögn Gunna og Kollu. „Hálsfestar, armbönd, kragar og klútar verða áfram vinsæl. Freebird er með fallega og oft sérstaka hluti sem eru handgerðir og til í litlu magni.“

Hjónin segja jólaverslunina hafa þróast þannig að hún sé jafnari enda hafi opnunartími lengst með árunum. „Það er samt alltaf heitt í kolunum síðustu daga fyrir jól og verður eflaust þessi jólin líka. Íslenskar konur elska að versla fyrir jólin. Þrátt fyrir erfiða tíma í þjóðfélaginu þá láta konur það samt eftir sér enda fátt skemmtilegra. Mennirnir eru oft tvístígandi þegar kemur að því að velja jólagjafir en með réttri þjónustu þá eru málin nú yfirleitt leyst farsællega.“

Enginn vill lenda í jólakettinum og því er desembermánuður ansi líflegur í fataverslunum. Nánar er fjallað um fatavalið um jólin í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.