*

Menning & listir 30. maí 2019

Gyðingahatur lengi landlægt á Íslandi

Framkoma Hatara í Eurovision var viðbúin segir pistlahöfundur The Jerusalem Post.

Framkoma og flutningur Hatara í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var viðbúin segir Barry Shaw, pistlahöfundur The Jerusalem Post. Gyðingaandúð hafi lengi verið landlæg hér á landi. 

Sem kunnugt er var Hatrið mun sigra, lag Hatara, framlag sveitarinnar í Eurovision þetta árið. Í aðdraganda keppninnar voru liðsmenn sveitarinnar á útopnu með að þeim þætti skrítið að halda keppnina í Ísrael í ljósi framgöngu þeirra í garð Palestínu. Á keppninni sjálfri dróg sveitin fram trefla með fána Palestínu og veifaði þeim framan í myndavélarnar. 

„Vanþakklæti sveitarinnar í garð Ísrael, en hermenn ríkisins verndaði hana yfir 700 palestínskum flugskeytum meðan sveitin æfði sig fyrir keppnina, var mætt með púi og fordæmingu meðan þeir veifuðu fána Palestínu, [...]. Háttsemi þeirra féll í grýttan jarðveg og varð smánarblettur fyrir Ísland,“ segir í pistlinum

Það var hins vegar viðbúið að mati höfundarins. Rekur hann að strax á 17. öld hafi mátt merkja gyðingahatur í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Þá hafi Björn Olsen, fyrrverandi þingmaður og skólameistari Lærða skólans, ritað níð um gyðinga í upphafi 20. aldar. Hið sama hafi Halldór Laxness einnig gert. 

„Meðal annarra gyðingahatara frá Íslandi má nefna rithöfundinn Gunnar Gunnarsson en sá fundaði með Hitler í Berlín þann 20. mars 1940. Var tekin mynd af honum á leið af þeim fundi en við hlið hans var Hinrich Lohse, sem síðar slátraði gyðingum í gettóum Lettlands,“ ritar Shaw.

Þá er saga Björns Sveinssonar Björnssonar, elsta sonar Sveins Björnssonar, fyrsta forseta Íslands, einnig rakin. Er síðari heimstyrjöldin gekk í garð gekk hann í Waffen SS en síðar varð hann fréttaritari hjá nasistum. Er honum í greininni líkt við hinn breska William Joyce en sá var líflátinn fyrir störf sín fyrir nasista. 

„Björnsson slapp við þau örlög þökk sé inngripi móður sinnar og verndarhendi íslenskra sjórnvalda,“ segir Shaw. 

„Hraðspólum fram í tímann til Hatara að syngja Hatrið mun sigra í Tel Aviv. Þá vaknar upp sú spurning hvort Ísland hafi breyst eitthvað frá tímum nasismans,“ segir Shaw að lokum.