*

Sport & peningar 17. ágúst 2017

Gylfi langdýrasti Íslendingurinn

Gylfi Þór Sigurðsson er 32. dýrasti knattspyrnumaður sögunnar.

Gylfi Þór Sigurðsson gekk í gær til liðs við enska knattspynuliðið Everton frá Swanesa. Kaupverðið er talið nema um 45 milljónum punda eða því sem nemur rúmlega 6,3 milljörðum íslenskra króna. Gylfi verður þar með langdýrasti íslenski knattspyrnumaðurinn en hann átti sjálfur metið frá því að hann gekk til liðs við Swansea fyrir 10 milljónir punda árið 2014. Þar áður hafði Eiður Smári Guðjohnsen verið sá dýrasti eftir vistaskipti sín til Barcelona árið 2006.  

Gylfi verður ekki bara dýrasti íslendingurinn heldur er einnig líklegt að hann verði 32. dýrasti knattspyrnumaður sögunnar. Hann verður því dýrari en leikmenn á borð við Mesut Özil, leikmann Arsenal, og Sergio Aguero leikmann Manchester City. Þess má einnig geta að íslensku félögin FH og Breiðablik munu samtals fá um 96 milljónir króna í svokallaðar uppeldisbætur vegna félagaskiptanna.

Stikkorð: Gylfi Þór Sigurðsson  • Everton  • Swansea