*

Sport & peningar 28. desember 2017

Gylfi langlaunahæsti íþróttamaðurinn

Gylfi Þór Sigurðsson er með hæstu laun sem íslenskur íþróttamaður hefur fengið fyrr og síðar.

Róbert Róbertsson

Gylfi Sigurðsson er sem fyrr langlaunahæstur íslenskra íþróttamanna með um 660 milljónir króna á ári. Þetta eru hæstu laun sem íslenskur íþróttamaður hefur fengið fyrr og síðar. Gylfi gerði gríðarlega góðan samning við Everton þegar hann gekk til liðs við félagið frá Swansea í haust. Hann hækkaði talsvert í launum frá því sem hann hafði hjá Swansea og hjá Tottenham áður. Gylfa var ætlað að leiða Everton í toppbaráttuna en það hefur ekki gengið eftir og stjórinn Ronald Koeman fékk að fjúka eftir mjög dapurt gengi í haust. Liðið hefur þó verið að koma til í síðustu leikjum undir stjórn nýja stjórans Sam Allardyce og hefur Gylfi staðið sig vel.

Aron Jóhannsson er í öðru sæti yfir launahæstu menn en hann leikur með Werder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni. Aron er með um 200 milljónir í árslaun. Aron leikur fyrir bandaríska landsliðið en hann er með íslenskt og bandarískt ríkisfang. Aron lék bæði með Fjölni og Breiðablik áður en hann fór út í atvinnumennsku.

Jóhann Berg gerir það gott

Jóhann Berg Guðmundsson er sá þriðji launahæsti en hann hefur leikið mjög vel með Burnley sem hefur verið einn óvæntasti smellur ensku úrvalsdeildarinnar á leiktíðinni. Jóhann Berg hefur verið að leggja upp fullt af mörkum fyrir Burnley sem er í toppbaráttu úrvalsdeildarinnar, eitthvað sem fáir ef nokkur átti von á.

Birkir Bjarnason fær einnig mjög góð laun hjá Aston Villa í ensku 1. deildinni eða um 170 milljónir í árslaun. Hann hefur þó fengið fá tækifæri hjá Steve Bruce, knattspyrnustjóra Miðlandaliðsins. Lið Aston Villa er dýrasta liðið í ensku 1. deildinni.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.