*

Sport & peningar 30. desember 2019

Gylfi malar gull í Bítlaborginni

Gylfi Þór Sigurðsson er sem fyrr langlaunahæstur íslenskra íþróttamanna.

Róbert Róbertsson

Gylfi Þór Sigurðsson er sem fyrr langlaunahæstur íslenskra íþróttamanna. Gylfi, sem er fyrirliði enska úrvalsdeildarliðsins Everton, er með um 750 milljónir króna í árslaun. Jóhann Berg Guðmundsson er í öðru sæti með um 300 milljónir króna í árslaun en hann leikur einnig í ensku úrvalsdeildinni með Burnley.

Gylfi hefur átt erfiðara uppdráttar en oft áður inni á vellinum enda hefur Everton verið í töluverðu basli það sem af er leiktíðinni. Bláklædda liðinu í Bítlaborginni var spáð góðu gengi á leiktíðinni en hefur valdið miklum vonbrigðum. Everton var í fallsæti í byrjun desember en náði að lyfta sér aðeins upp með góðum 3-1 sigri á Chelsea. Þótt Gylfi hafi oft leikið betur þá kemur það þó ekki í veg fyrir að hann mali gull í Bítlaborginni.

Aron Einar Gunnarsson og Birkir Bjarnason yfirgáfu England og fylgdu Heimi Hallgrímssyni til Katar þar sem þeir leika undir stjórn Heimis með Al Arabi. Aron fór í frjálsri sölu frá Cardiff og Birkir losnaði undan samningi við Aston Villa. Hann hafði verið samningslaus í nokkra mánuði áður en hann skrifaði undir við Al Arabi. Aron Einar og Birkir hafa verið með launahæstu atvinnumönnunum undanfarin ár. Sama má segja um Alfreð Finnbogason sem leikur með Augsburg í þýsku Bundesligunni en hann er með um 220 milljónir króna í árslaun.

Hér að neðan má sjá tíu launahæstu íslensku atvinnumennina:

  1. Gylfi Þór Sigurðsson Everton um 750 m.kr.
  2. Jóhann Berg Guðmundsson Burnley um 300 m.kr
  3. Birkir Bjarnason Aston Villa/Al Arabi um 290 m.kr.
  4. Aron Einar Gunnarsson Cardiff/Al Arabi um 230 m.kr.
  5. Alfreð Finnbogason Augsburg um 220 m.kr.
  6. Björn Bergmann Sigurðarson Rostov um 190 m.kr.
  7. Hörður Björgvin Magnússon CSKA Moskva um 185 m.kr
  8. Sverrir Ingi Ingason PAOK um 180 m.kr.
  9. Viðar Örn Kjartansson Rubin Kazan um 180 m.kr.
  10. Ragnar Sigurðsson Rostov um 175 m.kr

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag.