*

Sport & peningar 1. janúar 2013

Gylfi með 40 milljónir á mánuði hjá Tottenham

Það kemur varla á óvart að 18 af 20 tekjuhæstu íslensku atvinnumönnunum leika knattspyrnu.

Róbert Róbertsson

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður breska Úrvalsdeildarliðsins Tottenham, er launahæsti íslenski knattspyrnumaðurinn í dag. Samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins nema árslaun hans um 480 milljónum króna á ári, jafnvirði um 40 milljóna króna á mánuði.

Fram kemur í áramótatímariti Viðskiptablaðsins að fjöldi íslenskra atvinnumanna gerir það gott um alla Evrópu um þessar mundir. Nokkrir Íslendingar leika í ensku B-deildinni. Þar eru launin prýðileg og oftast hærri en í efstu deildum í flestum öðrum Evrópulöndum ef frá eru skilin Spánn, Ítalía og Þýskaland.

Sá sem kemur næstur Gylfa í launum er Kolbeinn Sigþórsson, leikmaður Ajax í Hollandi. Árslaun hans eru talsvert lægri en þau sem Gylfi fær í vasann, um 96 milljónir króna á ári, um 8 milljónir króna á mánuði. Þá er Heiðar Helguson hjá Cardiff með 72 milljónir í laun á ári. Aron Gunnarsson, samherji hans hjá Cardiff, er með tveimur milljónum minna. Til samanburðar er Eiður Smári Guðjohnsen með um 66 milljónir króna á ári hjá Cercle Brugge í Belgíu. Á sama tíma og Gylfi Þór fær 348 milljónum meira í vasann á ári hjá Tottenham en fyrir ári horfði Eiður Smári upp á 34 milljóna króna launalækkun.

Nánar má lesa um málið í ítarlegri umfjöllun í áramótatímariti Viðskiptablaðsins.