*

Sport & peningar 29. desember 2020

Gylfi með 850 milljónir

Umfjöllun um launahæstu íslensku atvinnumennina er að finna í áramótum en þar trónir Gylfi Þór Sigurðsson á toppnum.

Róbert Róbertsson

Gylfi Þór Sigurðsson er sem fyrri daginn langlaunahæsti íslenski atvinnumaðurinn. Gylfi er með 850 milljónir króna í árslaun hjá enska úrvalsdeildarliðinu Everton. Gylfi hefur haft mikla yfirburði yfir aðra íslenska atvinnumenn undanfarin ár hvað varðar laun. Jóhann Berg Guðmundsson er í öðru sæti yfir launahæstu íslensku atvinnumennina með um 350 milljónir króna í árslaun hjá Burnley. Aron Einar Gunnarsson er í því þriðja með um 280 milljónir króna á ári hjá Al Arabi og Alfreð Finnbogason í því fjórða með um 270 milljónir króna hjá Augsburg í Þýskalandi.

Ein stærstu leikmannaskiptin á árinu eru þau að markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson gekk til liðs við enska stórliðið Arsenal frá franska liðinu Dijon. Kaupverðið er talið vera í kringum eina og hálfa milljón punda eða 250 milljónir króna. Rúnar Alex er 25 ára og á að baki tvö tímabil með Dijon og þrjú með Nordsjælland í atvinnumennsku. Hann hefur þegar fengið tækifæri með Arsenal í Evrópukeppninni. Rúnar Alex er þar með þriðji íslenski leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni. Rúnar fer mjög ofarlega á listann yfir þá launahæstu en hann er með um 220 milljónir króna í árslaun hjá Arsenal og hækkar mjög mikið í launum en hann var með um 60 milljónir króna á ári hjá Dijon.

Farnir frá Rússlandi

Nokkrir atvinnumenn færðu sig um set frá Rússlandi og lækkuðu talsvert í launum við þau vistaskipti enda eru yfirleitt mjög góð laun í rússneska boltanum. Viðar Örn Kjartansson fór frá Rubin Kazan í Rússlandi til Noregs og leikur þar með Valerenga. Hann gerði þriggja ára samning við norska úrvalsdeildarliðið í haust. Viðar Örn hefur byrjað mjög vel með Valerenga og skoraði m.a. þrennu á dögunum gegn Brann í 4-1 sigri. Matthías Vilhjálmsson leikur einnig með Valerenga en hann er á heimleið eftir keppnistímabilið og mun leika með FH á næsta ári.

Björn Bergmann Sigurðarson færði sig einnig um set frá Rússlandi til Noregs. Hann lék með Rostov í Rússlandi en gekk til liðs við Lillestöm fyrr á árinu en hann lék með norska liðinu í fimm ár frá 2009 til 2014 áður en hann hélt til Wolves í Englandi. Jón Guðni Fjóluson hætti hjá rússneska liðinu Krasnodar og samdi við Brann í Noregi. Jón Guðni og Krasnodar komust að samkomulagi um riftun samnings en miðvörðurinn átti eftir eitt ár af samningstíma sínum, eftir að hafa komið til Krasnodar frá Norrköping sumarið 2018. Varnarjaxlinn Ragnar Sigurðsson hélt einnig á brott frá Rússlandi þar sem hann lék með Rostov og samdi við FC Kaupmannahöfn.

Eftir í Rússlandi eru þeir Hörður Björgvin Magnússon og Arnór Sigurðsson sem leika báðir með CSKA Moskva. Hólmar Örn Eyjólfsson var einnig á ferðinni frá Austur-Evrópu til Norðurlandanna en hann fór frá Levski Sofia í Búlgaríu til Rosenborg í Noregi.

Ungir og efnilegir á uppleið

Ísak Bergmann Jóhannesson hefur vakið mikla athygli á undanförnum mánuðum sem leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Norrköping. Knattspyrnumaðurinn ungi frá Akranesi er aðeins 17 ára gamall en hann hefur nú þegar stimplað sig inn í byrjunarlið Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni. Ísak hefur auk þess verið orðaður við mörg stórlið Evrópu, m.a. Liverpool, Manchester United og Juventus. Samkvæmt breskum fjölmiðlum er líklegt kaupverð á Ísak um 6 milljónir evra og telur enska blaðið að stórlið muni koma með tilboð í leikmanninn þegar glugginn opnar aftur í janúar. 

Listann í heild sinni, sem telur 36 atvinnumenn, má finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.