*

Veiði 14. júní 2014

Gylfi Pálsson byrjar með Undertaker

Árangursríkt að nota flugur sem eru svartar að grunnlit.

Gylfi Pálsson, þýðandi og þulur, er landsfrægur veiðimaður en hann ritstýrði Veiðimanninum um árabil. Hann segist una sér vel við veiðar í Soginu og Stóru-Laxá en einnig í Fnjóská, sem sé kapituli út af fyrir sig. Veiðiblað Viðskiptablaðsins fékk hann til að velja sínar fimm uppáhalds laxaflugur.

„Þegar velja skal fimm laxaflugur og veiðitíminn ekki hafinn er úr vöndu að ráða. Sumir koma sér upp eins konar kerfi hvers konar flugur eigi við í ákveðnum veðurskilyrðum. Það er ekki óskynsamlegra en hvað annað. Ég bregð hins vegar á það ráð að ræða um flugur sem eiga það sammerkt að vera allar svartar að grunnlit. Er nefnilega þeirrar skoðunar að laxar greini vel svarta litinn í vatninu þegar þeir sjá fluguna bera við himin, hvort sem er heiðan eða skýjaðan. Í tæru vatni þarf hún ekki að vera stór; nr. 10-12 er hæfileg stærð.

Oftar en ekki stend ég mig að því að ég byrja með Undertaker einfaldlega vegna þess að ég hef á seinni árum fengið fleiri laxa á hana en aðrar flugur. Ég get ekki að því gert að ég hugsa stundum til frænda míns í Winnipeg, útfararstjórans Arinbjarnar heitins Bardal, þegar ég hnýti hana á tauminn. Hjátrúin er aldrei langt frá veiðimanninum; það er gott að heita á einhvern. Arinbjörn sagði við bróður minn er hann heimsótti frænda vestur í Kanada 1947: „Well, á ég ekki að sýna þér buisnessinn minn?“, leiddi hann í líkhúsið og sýndi honum smurð líkin í röðum. Stundum hefur það gerst eftir að hafa notað Undertaker að hægt hefur verið að leggja nokkra laxa til á árbakkann og dást að þeim,“ segir Gylfi

Nánar er fjallað um fimm bestu laxveiðiflugurnar í Veiðiblaði Viðskiptablaðsins sem kom út 12.júní 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Veiði