*

Sport & peningar 6. júlí 2012

Gylfi Þór fær um hálfan milljarð í árslaun

Laun Gylfa Þórs Sigurðssonar munu fjórfaldast á milli ára hjá Tottenham. Hann fær um 10 m.kr. á viku í laun hjá félaginu.

Gísli Freyr Valdórsson

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson, sem í vikunni skrifaði undir samning við enska liðið Tottenham, verður í vetur langlaunahæsti íslenski knattspyrnumaðurinn.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fær Gylfi Þór um 50 þúsund pund á viku í laun hjá Tottenham, eða um 9,9 milljónir króna. Það þýðir að árslaun Gylfa Þórs verða um 516 milljónir króna hjá félaginu.

Þetta þýðir að laun Gylfa Þórs hafa nær fjórfaldast á milli ára en í úttekt í áramótatímariti Viðskiptablaðsins um síðustu áramót kom fram að Gylfi Þór var þá næst launahæsti íslenski leikmaðurinn með um 132 milljónir króna í árslaun.

Grétar Rafn Steinsson hjá Bolton var með hæstu launin í fyrra, um 144 milljónir króna á ári. Þá var Heiðar Helguson hjá QPR með um 120 milljónir króna og Eiður Smári Guðjónsen með um 100 milljónir króna hjá gríska liðinu AEK.