*

Bílar 28. ágúst 2013

Hábyggður fjölnotabíll frá Kia

Kia frumsýnir nýjan bíl á bílasýningunni í Frankfurt í næsta mánuði.

Róbert Róbertsson

Suður-kóreski bílaframleiðandinn Kia Motors mun frumsýna hin nýja Kia Soul á bílasýningunni í Frankfurt í næsta mánuði. Þetta er hábyggður fjölnotabíll af minni meðalstærð sem byggður er á grunni hins vinsæla Kia cee'd. Bíllinn hefur nú þegar fengið góðar viðtökur í Bandaríkjunum en stefnt er að því að Soul komi á almennan bílamarkað í Evrópu í byrjun næsta árs.

Kia Soul er hábyggðari en fólksbílar af svipaðri stærð. Það þýðir að auðvelt er að stíga inn og út úr honum og sætin eru há og útsýni gott. Kia menn hafa lofað því að hann verði vandaður að utan sem innan og aksturseiginleikar með því besta sem býðst í þessum flokki bíla. Ellefu meginlitir verða í boði og auk þess þrír sérlitir fyrir þakið sérstaklega.

Tvennskonar vélar verða í boði í Kia Soul; annarsvegar 1,6 l bensínvél og hins vegar jafnstór dísilvél. Sex gíra handskipting er staðalbúnaður en sex hraða sjálfskipting verður einnig fáanleg. Tveir Kia Soul bílar verða til sýnis í Frankfurt og verður annar þeirra búinn sérstökum „skrautpakka“ sem m.a. inniheldur brettakanta, hlífðarplast á hliðum, sérlakkaða stuðara úr svörtu píanólakki, sérlit á toppi og toppgrindarboga. 

Stikkorð: Kia