*

Ferðalög 3. júlí 2012

Hægt að berjast með sverði og byssum víða í Evrópu

Þeir sem vilja upplifa það hvernig var að vera skylmingaþræll í Róm eða hermaður í liði Napóleons geta nú látið drauminn rætast.

Þeir sem áhuga hafa á því að ganga í hlutverk skylmingaþræla á tímum Rómverja, hermanna í Napóleon-stríðunum og öðrum átökum ættu að hafa úr nægu að velja í sumar. Fjöldi uppákoma verða víðs vegar í Evrópu þar sem óbreyttir borgarar geta klætt sig upp sem hermann frá ýmsum tímabilum í mannkynssögunni og endurtekið sögufræga bardaga. 

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal hefur tekið saman heilmikla umfjöllun um málið og hvað er í boði fyrir þá sem vilja ganga inn í söguna, ef svo má að orði komast. 

Á rómverska hringleikahúsinu í Nimes í Frakklandi geta gestir klætt sig upp sem Rómverja og geta þeir fylgst með íþróttakappleikjum á kerrum eins og hefðin var í kringum 122 f. Kr. Þeir huguðustu geta tekið þátt í leikunum. 

Reyndar má segja að Napóleon eigi sumarið en víða í Evrópu verða stríð hans endurtekin. Á sama tíma og Evrópa lá yfir lokaleiknum á EM í knattspyrnu tóku rúmlega 1.000 mann þátt í því að endurskapa árás herja Napóleon gegn Rússum á bökkum Neman-ár í Litháen í tilefni af því að 200 ár eru liðin frá atburðunum. Svipaðir slagir verða teknir í sumar í Portúgal, á Spáni og víðar í Rússlandi, svo sem í nágrenni Moskvu, alveg fram í september. 

Nánar má lesa um málið á vef The Wall Street Journal.

Stikkorð: Napóleon  • Rómverjar