*

Ferðalög 20. janúar 2013

Hægt að sigla fyrir um 350 þúsund

Viðskiptablaðið gerði lauslega verðkönnun á skemmtisiglingum á vegum íslensku ferðaskrifstofanna.

Gísli Freyr Valdórsson

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um skemmtisiglingar og þá möguleika sem þar eru í boði á sérstakri síðu um ferðalög.

Lausleg verðkönnun Viðskiptablaðsins á skemmtisiglingum hjá íslensku ferðaskrifstofunum sýnir að flestar skemmtisiglingar eru á verðbilinu 320-550 þúsund krónur á mann. Í öllum tilvikum eru flug og hótelgistingar (2-4 nætur) innifalið og verðið er misjafnt eftir því hvort fólk dvelur í klefa með eða án glugga, með eða án svala og síðan með svölum sem er dýrast.

Siglingar um Karíbahafið virðast oftast vera ódýrastar og kosta á bilinu 320-360 þúsund krónur (í klefa án svala) upp í 410 þúsund í klefa með svölum. Þá er hægt að sigla frá Kanada niður austurströnd Bandaríkjanna fyrir 485-545 þúsund krónur á mann.

Það er dýrara að sigla um Miðjarðarhafið, verð á bilinu 500-590 þúsund krónur á mann, og um Svartahaf fyrir 480-540 þúsund krónur á mann. Þá er hægt að kaupa ferðir fyrir rúmlega 800 þúsund krónur á mann.

Hér er rétt að taka fram að ferðirnar eru misjafnlega langar, með mismörgum flugleiðum og þar fram eftir götunum og kostnaðurinn miðast af því. Þá er einnig rétt að benda á að norrænar ferðaskrifstofur bjóða upp á samskonar ferðir, stundum fyrir lægra verð, en þá bætist fyrst við flug til Norðurlanda.

 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.