*

Bílar 29. apríl 2018

Hælisbíllinn frá Kristnesi gerður upp

Á samgönguminjasafninu á Ystafelli er unnið hörðum höndum að því að gera upp Hælisbílinn svonefnda.

Á samgönguminjasafninu á Ystafelli norður í landi hafa tveir menn, þeir Sverrir Ingólfsson safnstjóri og Jón Helgi Sigurðsson, unnið hörðum höndum að því að gera upp Hælisbílinn svonefnda með hjálp góðra manna, má þar helst nefna Benedikt Karlsson sem hefur verið óþreytandi að hjálpa til.

Helsta hlutverk Samgönguminjasafnsins er að safna samgöngutækjum og varðveita þau, svo og upplýsingum og myndefni úr samgöngusögu Íslands. Að þessu höfum við unnið eftir bestu getu og eitt verkefna okkar er Kristnesbíllinn eða Hælisbíllinn eins og hann er iðulega kallaður hér fyrir norðan. Það er metnaðarfullt verkefni og veruleg áskorun en er um leið minnisvarði um merkilega sögu, bæði samgöngulega og ekki síður hvað útfærslu bíla á fyrri tímum varðar,“ segir Sverrir.

Hann hefur verið í hjólastól undanfarin 30 ár en lætur það ekki stoppa sig í þessu mikla verkefni.

Yfirbyggingin fór á Ford árgerð 1947

Grímur Valdimarsson byggði yfir marga bíla á Akureyri og veturinn 1947-48 smíðaði hann yfirbyggingu fyrir Kristneshæli í Eyjafirði.

„Yfirbyggingin fór á Ford árgerð 1947 sem fékk viðurnefnið Kristnesbíllinn. Bíllinn var notaður í ferðir á milli Kristness og Akureyrar í alla aðdrætti fyrir hælið og starfsfólkið fékk að sitja í ef þess þurfti. Þessi yfirbygging hefur verið mjög vönduð smíði, útfærslan og frágangur með miklum ágætum og hvergi til sparað. Bíllinn var tekinn í notkun í maí 1948 og var svo auglýstur til sölu í september 1964. Verkefnið felur því m.a. í sér að varðveita og sýna þennan þátt í sögu svæðisins,“ segir Sverrir.

Nánar er fjallað um málið í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.