*

Matur og vín 18. febrúar 2013

Hætta við að þynna viskíið

Framleiðendur hins vinsæla Maker's Mark bourbon viskís hafa hætt við að minnka áfengismagnið.

Bandaríski áfengisframleiðandinn Beam Inc. hefur hætt við áform um að þynna út hið vinsæla Maker's Mark bourbon viskí, en eins og vb.is greindi frá fyrir skömmu stóð til að breyta áfengismagni í Maker's Mark úr 45% í 42%.

Ástæðan fyrir þynningunni var mjög aukin eftirspurn eftir viskíinu. Verðið á Maker's Mark var hækkað vegna eftirspurnarinnar, en stjórnendurnir litu augljóslega svo á að það væri ekki nóg og ákváðu því að þynna áfengismagni.

Viðbrögð viðskiptavina voru hins vegar afar hörð og neikvæð og hefur fyrirtækið því snúið ákvörðuninni við. Á Twitter-síðu fyrirtækisins sagði einfaldlega „Þið tjáðuð ykkur. Við hlustuðum.“ Núna verður áhersla lögð á að auka framleiðslugetu verksmiðjunnar.

Stikkorð: Viskí  • Maker's Mark