*

Ferðalög & útivist 13. maí 2013

Hættulegustu staðir í heimi fyrir ferðamenn

Gönguleiðir upp virk eldfjöll eða skíði í 4000 metra hæð er kannski ágætis áhætta. En hvað með í miðju stríði?

CNN hefur tekið saman fimm staði í heimi sem þeir telja þá hættulegustu fyrir ferðamenn að heimsækja.

Staðirnir eiga það sameiginlegt að vera ótrúlega fallegir og sérstakir og þess vegna þráast þeir allra fífldjörfustu við og halda áfram að heimsækja staðina. U.S. State Department varar við ferðalögum til allra staðanna á listanum.

1. Band-e-Amir Lakes, Afganistan.

Band-e-Amir er fjallgarður með fallegum vötnum. Fólk setur Afganistan kannski ekki alltaf í samhengi við ferðamannaiðnað enda þykir mjög hættulegt að heimsækja landið svona yfirhöfuð. En þótt ótrúlegt megi virðast þá sjást ferðamenn iðulega á röltinu niður Bamiyan veg í átt að Band-e-Amir sem er 240 kílómetra fyrir vestan Kabúl. Bamiyan hérað þykir þó með þeim öruggari í Kabúl og fólk, sem ferðast þangað, segir staðinn einstakan.

2. Ciudad Perdida, Kólumbía.

Ciudad Perdidad eða „Týnda borgin“ þykir einstaklega falleg gönguleið. En því miður er staðsetningin óheppileg því kókaínframleiðsla, og ofbeldið og óöldin sem henni fylgir, umlykur gönguleiðina. Árið 2003 var átta ferðamönnum rænt á göngunni og gerði það lítið til að auka vinsældir hennar. Þeim var reyndar sleppt þremur mánuðum síðar. Öryggisástandið í landinu hefur þó batnað og ferðamönnum á svæðinu hefur fjölgað til muna síðustu árin.

3. Mount Damavand, Íran

Gangan upp Mount Damavand þykir ein sú besta í heimi. Það er í 5671 metra hæð og er hluti af Alborz fjallgarðinum. Fjallið er eldfjall og er hæsta eldfjall í Asíu. Fjallið er fallegt og er mynd af því á flöskuvatni og 10.000 seðli gjaldmiðilsins rial. Þegar forseti Írans, Ahmedinejad, heldur ræður gegn Vesturveldunum stendur hann jafnan fyrir framan plakat af fjallinu. Fjallgöngugarpar eru hrifnir af fjallinu sérstaklega vegna þess hve fáir eru á ferli á gönguleiðinni.

4. Kasmír, Indland.

Alvöruskíðafólk sem vill vera töff fer til Kasmír. Fyrir þrettán árum síðan fékk ferðamannaiðnaðurinn í Kasmír þó örlítið bakslag þegar Bill Clinton kallaði svæðið hættulegasta stað í heimi. En síðan þá hefur lifnað yfir ferðamannaiðnaðinum og yfir 20.000 ferðamenn heimsækja Kasmír á hverju ári. Gulmarg er vinsælt skíðasvæði í Kasmír og það eina í Himalayafjöllunum. Staðsetningin er þó við hliðina á landamærum Indlands og Pakistans og þykir það svæði mjög hættulegt og róstusamt. Aðeins ein skíðalyfta er á svæðinu og hún er sú hæsta í heimi og flytur skíðafólk upp í 4000 metra hæð. 

5. Mount Nyiragongo, Kongó.

Þjóðgarðurinn Virunga hefur verið lokaður ferðamönnum síðan í nóvember vegna ófriðar. En talið er að hann muni opna á ný um leið og ástandið róast. Fjallið Mount Nyiragongo er virkt eldfjall og þykir umhverfið allt á leið upp á topp gríðarlega fallegt og áhættunnar virði að sögn fjallagarpa.

 

 

 

Stikkorð: Ferðalög  • Hættulegt  • Fífldirfska