*

Hitt og þetta 13. nóvember 2013

Hættulegustu vegir í heimi

Á hættulegustu vegum í heimi er jafnan nær ómögulegt að mæta öðrum bíl og þá er líka eins gott að vera á nöglum.

Jafnvel hörðustu torfærukonur og menn hljóta að fá örlítinn sting í magann þegar ferðast er um vegina fimm sem News 24 velur þá hættulegustu í heimi. 

Vegurinn á milli La Paz, höfuðborgar Bólivíu, og Amazonfrumskógarins er kallaður „Vegur dauðans“. Lækkunin á leið niður frá höfuðborginni, sem er sú hæsta í heimi, eru 3500 metrar. Vegurinn er frægur fyrir krappar beygjur, hengjur niður í gil og fá vegahandrið. 

Þjóðvegurinn á milli Durango og Ouray í Colorado í Bandaríkjunum  er kallaður „Milljón dollara þjóðvegurinn." Hann þykir heldur ógnvænlegur á köflum sem eru mjög brattir og skrykkjóttir. Vegurinn var lagður árið 1880 og er sérstaklega varhugaverður yfir vetrarmánuðina en þaðan fær hann einmitt nafnið sitt því heimamenn segja jafnan: „Það þarf að borga mér milljón dollara til að aka þennan veg í snjó." 

Trollstigen eða Tröllastígur í Noregi er ekki allra. Vegurinn er óvenju hlykkjóttur og fer yfir fjallgarð. Einhverjir kaflar á veginum hafa verið breikkaðir í gegnum árin en þó eru bílum, sem eru lengri en 12,4 metrar, óheimilt að aka um hann. 

Guoliang göngin í Kína þykja merkileg. Áður en vegurinn var lagður þurfti fólk, sem vildi komast í þorpið Guoliang hátt uppi í fjalli, að ganga upp stiga sem hét „Himnastiginn". Þorpsbúar tóku þó málin í sínar hendur og grófu sjálfir göng sem eru 1,2 kílómetri að lengd, 4,9 metrar á hæð og tæpir 4 metrar á breidd. Þessi göng þykja ekki þau traustustu í heimi og ofan á allt er vegurinn óútreiknanlegur og hækkar og lækkar fyrirvaralaust alla leiðina á leið upp fjallið og í þorpið.

Vegurinn Chapman´s Peak í Höfðaborg var lengi lokaður almenningi en hefur nú verið lagaður til og er opinn á ný. Hann var frægur fyrir grjóthrun og sérstaklega þá yfir vetrarmánuðina. Í dag er vegurinn notaður fyrir hjólreiðakeppnir.